Sveinn Þorkelsson (1894-1951)

Sveinn Þorkelsson

Sveinn Þorkelsson var kunnur kaupmaður sem hafði söng að áhugamáli og söng í karlakórum auk þess að senda frá sér eina tveggja laga 78 snúninga plötu.

Guðbrandur Sveinn Þorkelsson tenórsöngvari fæddist 1894 í Reykjavík. Hann fór til Kaupmannahafnar í verslunarskóla um tvítugt og lærði þá söng þar á sama tíma. Þegar heim var komið hóf hann að starfa við verslun í Hafnarfirði og fljótlega stofnaði hann eigin verslun þar og söng á þeim tíma með karlakórnum Þröstum í Firðinum, m.a. einsöng á tónleikum en hann hafði þá einnig sungið með Karlakór K.F.U.M. frá stofnun þess kórs árið 1916.

Sveinn flutti til Reykjavíkur árið 1927, opnaði þá verslun þar og hélt áfram að syngja með K.F.U.M. kórnum sem hlaut síðan nafnið Fóstbræður en auk þess hóf hann að syngja með Karlakór Reykjavíkur og varð þar einn af einsöngvurum kórsins og kom margsinnis fram sem slíkur en einnig söng hann oft á einsöngstónleikum ásamt Erling Ólafssyni, Árna Jónssyni frá Múla og fleirum án þess að kórarnir kæmu þar nærri. Þá söng Sveinn einnig í söngkvartett sem kallaður var Litli kvartettinn og er hér giskað á að sá kvartett hafi starfað innan Karlakórs Reykjavíkur. Einnig eru heimildir um að hann hafi sungið einsöng á tónleikum með karlakórnum Örnum en ekki liggur fyrir hvort hann hafi verið meðlimur þess kórs einnig.

Árið 1933 kom út tveggja laga plata (78 snúninga) með söng Sveins en þar var að finna lögin Hjartað og harpan og Tvær vorvísur. Um líkt leyti söng hann einnig á tveimur plötum Karlakór Reykjavíkur, annars vegar einsöng og hins vegar tvísöng með Daníel bróður sínum sem einnig var liðtækur söngvari og meðlimur kórsins.

Sveinn söng eitthvað fram eftir fimmta áratug aldarinnar en heilsuleysi háði honum nokkuð síðustu árin áður en hann lést vorið 1951.

Efni á plötum