Afmælisbörn 10. maí 2023

Ólafur Pétursson

Fimm tónlistartengd afmælisbörn koma við sögu Glatkistunnar í dag:

(Guðbjörn) Reynir Guðsteinsson tenórsöngvari frá Vestmannaeyjum fagnar stórafmæli en hann er níræður í dag, hann hefur sungið einsöng með ýmsum kórum á plötum, þar má nefna Maíkórinn, Kór Snælandsskóla og Samkór Vestmannaeyja en Reynir hefur einnig sungið með Karlakór Reykjavíkur. Hann gaf út sólóplötuna Ég er gestur árið 2002.

Þórir Úlfarsson á líka stórafmæli í dag en hann er fimmtugur. Þórir kemur víða við í íslensku tónlistarlífi, hann starfar mestmegnis í hljóðversvinnu, við upptökur og hljóðblöndun en hann hefur einnig leikið á ógrynni útgefinna platna sem hljómborðsleikari, t.d. á plötum Mannakorna, Harðar Torfa, Björgvins Halldórssonar, Bjarna Ara og margra annarra. Hann er einnig afkastamikill lagasmiður og útsetjari, og hefur starfað með ótal hljómsveitum.

Bjarni Bjarnason frá Brekkubæ (fæddur 1897) átti einnig afmæli þennan dag en hann lést 1982. Hann var sannkallaður tónlistarfrömuður suðaustanlands, var organisti við kirkjukór Bjarnanessóknar í sextíu ár, stjórnaði kórum í heimabyggð, stofnaði Karlakór Hornafjarðar sem síðar varð að Karlakórnum Jökli og kenndi á orgel auk fleiri hljóðfæra. Bjarni samdi einnig tónlist.

Guðmundur Jónsson óperusöngvari (1920-2007) átti aukinheldur þennan afmælisdag. Afrek Guðmundar á söngsviðinu voru ótal mörg en hann söng í margs konar uppfærslum á óperum, með kórum og við annars konar tækifæri á löngum söngferli sínum. Söng hans má einnig heyra á fjölmörgum plötum, flestir þekkja samstarf hans og Guðrúnar Á. Símonar á sígildri jólaplötu en einnig þekkja allir lögin um Jón tröll og Lax, lax, lax, sem eru í léttari kantinum.

Og að lokum þá hefði harmonikkuleikarinn Ólafur Pétursson einnig átt afmæli á þessum degi en hann lést árið 1992. Ólafur fæddist 1921, lék með fjölda hljómsveita á sínum tíma á harmonikku, saxófón og klarinettu s.s. Hljómsveit Baldurs Kristjánssonar, Hljómsveit Eyþórs Þorlákssonar, KK-sextett, Hljómsveit Þóris Jónssonar og Hljómsveit Aage Lorange og lék hann inn á einhverjar plötur með sveitum sínum. Ennfremur kom út ein þriggja laga 78 snúninga plata með harmonikkuleik Ólafs.

Vissir þú að Pétur Steingrímsson tæknimaður hjá Ríkisútvarpinu smíðaði fyrsta stereó upptökutækið hérlendis?