Þrátt fyrir nokkurn fjölda hljómsveita sem borið hafa nafnið Færibandið virðist sú fyrsta ekki hafa verið starfrækt fyrr en við lok níunda áratugar síðustu aldar, þá starfaði sveit undir þessu nafni árið 1989 á Selfossi og var skipuð nokkrum ungum tónlistarmönnum sem flestir áttu eftir að koma víða við sögu í sunnlensku tónlistarlífi.
Færibandið starfaði í nokkra mánuði undir þessu heiti, fyrst um sinn sem kvartett þeirra Vals Arnarsonar hljómborðsleikara, Heimis Tómassonar gítarleikara, Ólafs Unnarssonar bassaleikara og Guðmundar Torfa Heimissonar söngvara en þeir áttu síðar eftir að starfa með sveitum eins og Sauðfé á mjög undir högg að sækja í landi Reykjavíkur, Bacchus og Fussumsvei.
Þeir félagar fundu sér fljótlega trommuleikara en sá var Gísli Reyr Stefánsson og með honum fylgdi bassaleikarinn Jón Hreggviðsson sem varð til þess að Ólafur færði sig yfir á rythmagítar. Guðmundur yfirgaf sveitina um það leyti til að ganga til liðs við Woolly and the teenagers og um tíma var Færibandið því án söngvara en rótari hljómsveitarinnar, Alfreð [?] söng þó eitthvað með henni m.a. í pásu á balli sem haldið var á Hótel Selfossi. Jón bassaleikari starfaði fremur stutt með Færibandinu en sæti hans tók Kristinn Jón Arnarson (Soma, Fjöll o.fl.) og enn urðu breytingar á skipaninni þegar söngkona að nafni Jóhanna [?] kom inn í hana en hún staldraði stutt við.
Um þessar mundir voru þeir Valur, Ólafur og Kristinn að byrja í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi um haustið og þar kynntust þeir Jónínu Kristjánsdóttur sem gerðist söngkona sveitarinnar, hún gerði að tillögu að heiti sveitarinnar yrði breytt og þá kom upp nafnið Kósínus, og starfaði hún eftir það undir því nafni.














































