Hljómsveitin Sexmenn (Sex menn) starfaði á sjöunda áratugnum á Ísafirði, upphaflega sumarið 1964 og svo aftur þremur árum síðar (1967).
Sveitin var stofnuð vorið 1964 og voru meðlimir hennar í upphafi þeir Vilberg Vilbergsson (Villi Valli) saxófón- og harmonikkuleikari, Barði Ólafsson söngvari, Baldur Ólafsson [bassaleikari?], Þórarinn Gíslason píanóleikari, Guðmundur Marinósson trommuleikari og Ólafur Pálsson saxófónleikari en flestir þeirra höfðu myndað hljómsveit Villa Valla áður. Sveitin starfaði um sumarið 1964 en hætti svo líklega.
Sexmenn komu aftur fram á sjónarsviðið árið 1967, aftur voru þeir sex talsins eins og nafn sveitarinnar gefur til kynna en að þessu sinni liggja aðeins fyrir upplýsingar um fjóra meðlimi sveitarinnar, þá Ólaf, Vilberg, Þórarin og Samúel Einarsson sem lék á bassa.














































