Hljómsveit sem bar nafnið Stemming starfaði á Austurlandi og gerði út frá Fellabæ á Héraði um tveggja ára skeið á árunum 1990 til 92. Sveitin lék á almennum dansleikjum, árshátíðum og þorrablótum á Héraði en kom einnig fram á Djasshátíð Egilsstaða sumarið 1991.
Meðlimir Stemmingar voru þeir Ingólfur Kristinn Guðnason gítarleikari, Jón Ingi Arngrímsson bassaleikari, Valgeir Skúlason trommuleikari og Elvar Sigurðsson söngvari sem mun hafa verið einn af upphaflegu meðlimum hennar en hætti fljótlega, Árni Óðinsson gítarleikari kom svo inn sem fjórði liðsmaður sveitarinnar síðasta árið sem hún starfaði. Harmonikkuleikararnir Gylfi Björnsson, Hreggviður Jónsson, Helgi Eyjólfsson, Magnús Bjarni Helgason og Aðalsteinn Ísfjörð voru kallaðir til þegar sveitin lék á þorrablótum.














































