Afmælisbörn 31. maí 2015

Kjartan Valdemarsson

Kjartan Valdemarsson

Þrjú tónlistartengd afmælisbörn koma við sögu hjá Glatkistunni í dag:

Kjartan Valdemarsson píanó- og hljómborðsleikari er fjörutíu og átta ára í dag. Kjartan er fjölhæfur tónlistarmaður og hefur leikið á fjölda poppplatna allt frá árinu 1984 þegar fyrst heyrðist til hans á safnplötum, hann hefur verið í mörgum þekktum hljómsveitum eins og Todmobile en í seinni tíð mestmegnis starfað í djasstengdum tríóum og kvartettum.

Ingólfur Þórarinsson (Ingó Veðurguð) frá Selfossi er tuttugu og níu ára gamall í dag. Ingólfur sem bæði syngur, leikur á gítar og semur tónlist náði hæstu hæðum með hljómsveit sinni Veðurguðunum en minna hefur farið fyrir honum hin síðustu ár. Hann gaf út sólóplötu fyrir nokkrum árum.

Einnig hefði Steinþór Gestsson alþingismaður frá Hæli í Hreppum átt afmæli í dag en hann lést 2005. Steinþór (f. 1913) var einn þeirra sem skipaði MA-kvartettinn á sínum tíma en kvartettinn hlaut landsfrægð fyrir söng sinn og gaf út fjöldann allan af 78 snúninga plötum á sjötta áratug síðustu aldar.