Diabolus in musica (1975-81)

Diabolus in musica2

Diabolus in musica

Kammerpoppsveitin Diabolus in musica var í upphafi tilraunastarfsemi nokkurra reykvískra menntaskólanema. Sveitin gaf út tvær plötur með mismunandi liðsskipan, og ól af sér nokkra landsþekkta tónlistarmenn. Sveitin skipar sér í hóp með öðrum viðlíka hljómsveitum sem þá voru starfandi, sveitum eins og Þokkabót, Melchior og jafnvel Spilverki þjóðanna.

Upphaf Diabolus in musica má rekja til Gabríellanna og Grasrex, fyrrnefndi hópurinn var söngtríó sem síðarnefndi hópurinn lék undir hjá á menntaskólaskemmtunum 1974. Það samstarf leiddi af sér þessa sveit sem fyrst í stað lék opinberlega undir nafninu Hljómsveitin hlær en breytti síðan nafni sínu í Diabolus in musica. Það var vorið 1975.

Sagan segir reyndar að sveitin hafi komið fram undir ýmsum öðrum nöfnum í upphafi, nöfnum eins og Sex á sviði, Sviðsex, Luracombó, Stud. mus., Gerðarbók efri deildar Alþingis og síðast en ekki síst Stormsveit efri deildar, sómi hennar sverð og skjöldur, til sjávar og sveita, hnífs og skeiðar, en það nafn hlýtur að gera tilkall til lengsta hljómsveitarnafns í íslenskri tónlistarsögu.

Meðlimir Diabolus in musica í upphafi voru Aagot Vigdís Óskarsdóttir söngkona, píanó- og flautuleikari, Jóna Dóra Óskarsdóttir söngkona, lágfiðlu- og flautuleikari, Jóhanna V. Þórhallsdóttir söngkona og flautuleikari, Guðmundur Thoroddsen píanó-, klarinettu- og slagverksleikari, Jón Sigurpálsson kontrabassaleikari og Páll Torfi Önundarson gítarleikari og söngvari. Þær Aagot Vigdís og Jóna Dóra eru systur.

Í ársbyrjun 1976 spurðist út að þrjú lög með sveitini yrðu á safnplötunni Í kreppu, sem þá var væntanleg um vorið. Um svipað leyti og safnplatan kom út, eða um páskana kom sveitin fram í sjónvarpsþættinum Í kjallaranum, og vakti þar nokkra athygli fyrir kammerpopp sitt með léttum revíublæ, helst dálítið djössuðum eins og þau sjálf sögðu.

Meðlimir Diabolus in musica voru flestir að útskrifast úr Menntaskólanum við Hamrahlíð um vorið og í blaðaviðtali sögðust þau myndu taka upp plötu um sumarið en að því loknu myndi sveitin leysast upp þar sem þau væru öll að fara í sitt hverja áttina í nám, innanlands og erlendis.

Það var því þannig að sveitin hélt lokatónleika sína um svipað leyti og platan, Hanastél…  …á Jónsmessunótt, kom út á vegum hljómplötuútgáfunnar Steinars. Hún var hljóðrituð í Hljóðrita í Hafnarfirði sem þá hafði nýverið stækkað hljóðver sitt í tuttugu og fjórar rásir.

Hanastélið, sem var konsept plata um samband og samskipti Péturs Jónatanssonar og Jófríðar, hlaut ágætar viðtökur plötugagnrýnenda, til dæmis í Alþýðublaðinu, Vísi og Dagblaðinu, auk þess sem hún fékk góða dóma í Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar. Lagið Pétur Jónatansson naut nokkurra vinsælda og heyrist enn reglulega spilað í útvarpi.

Diabolus in musica 1980

Diabolus in musica í Danmörku 1980

Sem fyrr segir lá fyrir að sveitin myndi hætta störfum þar sem hópurinn var að sundrast hvert í sína áttina, ekkert heyrðist því til hennar næstu misserin utan þess að tónlist með henni kom fyrir í stuttmyndinni Gegnum gras, yfir sand. Samstarfið lá því niðri næstu árin á meðan meðlimir sinntu öðrum verkefnum.

Það var síðan 1979 sem hluti hópsins var staddur við nám í Kaupmannahöfn og hóf æfingar á nýjan leik fyrir upptökur á nýrri plötu en hugmyndin að henni hafði orðið til þremur árum áður, Guðmundur, Jóna Dóra og Aagot voru þarna sem fulltrúar gömlu útgáfu sveitarinnar auk Jóhönnu sem bjó á Íslandi en bættist síðan í hópinn, en nýir meðlimir Diabolus in musica voru Tómas R. Einarsson, ungur kontrabassaleikari sem þarna var að stíga sín fyrstu spor í tónlistinni, og Sveinbjörn I. Baldvinsson gítarleikari og ljóðskáld sem þá hafði nýverið gefið út plötuna Stjörnur í skónum.

Farið var í hljóðver í Danmörku sumarið 1980 og þar var platan tekin upp með tveimur aðstoðarhljóðfæraleikurum, Steingrími Guðmundssyni trommuleikara og Kristjáni Pétri Sigurðssyni söngvara Kamarorghesta sem þá störfuðu í Kaupmannahöfn. Tvímenningarnir urðu þó aldrei fastir meðlimir Diabolus in musica.

Hljómsveitin hafði fengið hálfkveðin vilyrði um útgáfu plötunnar hér heima en aldrei skýr og afdráttarlaus svör, og því fór svo að hún ákvað að gefa plötuna út sjálf undir útgáfumerkinu DIM.

Blásið var í lúðra þegar meðlimir Diabolus in musica komu heim til Íslands um haustið til að kynna plötuna þótt hún væri ekki komin út, og voru öðruvísi aðferðir notaðar til kynningar á henni en tíðkaðist. Sveitin klæddi sig upp í búninga og „lék“ plötuna með eins konar götuleikhúsi á Lækjartorgi að viðstöddu margmenni, fleiri uppákomur komu í kjölfarið og allir biðu spenntir eftir plötunni sem væntanleg var.

Eins og þegar fyrri platan kom út þurftu meðlimir Diabolus in musica að hverfa til sinna heima í útlöndum til náms og starfa um haustið en áætlaður útgáfutími plötunar, sem hlaut nafnið Lífið í litum: þjóðsaga, var í október.

Október leið og beið og ekki birtist platan, eftir margra mánaða eftirgrennslan kom í ljós að upplagið hafði „gleymst“ í vöruskemmu í Ungverjalandi þar sem hún var pressuð, og ekki var hrakningasögu upplagsins lokið því að þegar það var loksins komið í skip til Íslands um vorið 1981 hreppti skipið aftakaveður og partur af því eyðilagðist við að rennibekkur hentist á það, að auki brotnaði stór sáputankur í látunum svo plöturnar urðu löðrandi í sápu. Um fjórðungur af 950 stykkja upplagi eyðilagðist.

Það var þó lán í óláni að vegna þess að útgáfa plötunnar dróst fram á vordaga 1981 þá höfðu meðlimir Diabolus in musica einmitt tök á því að fylgja plötunni eftir með tónleikahaldi í sumarfríi sínu.

Tónlistin sveitarinnar á þessari seinni plötu hafði þróast yfir að vera eins konar spunadjass en hún hlaut ekki síðri dóma en fyrri platan, góða í Helgarpóstinum, Dagblaðinu og Poppbók Jens Kr. og jafnvel enn betri í Tímanum en síðri í tónlistartímaritinu TT. Flestir voru þó sammála um að umslag plötunnar gæti varla verið ljótara.

Eftir tónleikatörn um sumarið 1980 var sveitin þó hætt og hefur ekki komið saman nema í örfá skipti síðan, m.a. við útför Guðmundar píanóleikara sem lést 1996 en fyrri platan, Hanastél…  …á Jónsmessunótt, var endurútgefin 2003 og tileinkuð minningu hans.

Hluti sveitarinnar hefur reyndar komið saman við ýmis tækifæri, m.a. undir nafninu Combó Jóhönnu Þórhallsdóttur þegar hún gaf út sólóplötuna Flauelsmjúkar hendur (1997), og undir nafninu Six pack latino, sem gaf út plötuna Björt mey og mambó (1999). Hluti hópsins lék einnig á sólóplötu Páls Torfa, Timbúktú og tólf önnur (2000).

Lög Diabolus in musica hafa komið út á nokkrum safnplötum í gegnum tíðina, þar má nefna fyrrnefnda plötu Í kreppu (1976) en einnig Stjörnuplötu 2 (1980), Með lögum skal land byggja (1985), Aftur til fortíðar 70-80 II (1990), Óskalögin 4 (2004) og 100 íslensk 70‘s lög (2009).

Efni á plötum