
Tveir þriðju The Dirty Dan project, bræðurnir Mike og Dan Pollock
Dirty Dan project var í raun aldrei starfandi nema sem hljóðversverkefni bræðranna Dan og Mike Pollock og trommuleikarans Ásgeirs Bragasonar sem yfirleitt er kenndur við Purrk pillnikk.
Tríóið starfaði í tvær nætur sumarið 1981 en um það leyti voru Utangarðsmenn að hætta störfum en þeir bræður starfræktu þá einnig hljómsveitina Bodies auk þess sem Mike gaf út sólóplötu á sama tíma.
Afraksturinn var þriggja laga smáskífa með frumsamið efni auk lags eftir Bob Dylan, en skífan kom út um haustið. Hún hlaut ágætis viðtökur þeirra gagnrýnenda sem á annað borð birtu plötudóma, í Þjóðviljanum og Dagblaðinu.
Sem fyrr segir starfaði sveitin ekki nema í kringum þetta verkefni en Dan Pollock kallaði sig þó stundum Dirty Dan í kjölfarið.














































