Kammerhljómsveit Akureyrar (1986-93)

Kammersveit Akureyrar

Kammerhljómsveit Akureyrar

Kammerhljómsveit Akureyrar starfaði um nokkurra ára skeið en hún var undanfari Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands.

Það voru nokkrir kennarar við Tónlistarskólann á Akureyri sem komu að stofnun sveitarinnar sumarið 1986 en hún var stofnuð formlega þá um haustið. Segja má að stofnun sveitarinnar hafi verið eins konar hugsjónastarf.

Starfsemi sveitarinnar var frá upphafi í nokkuð föstum skorðum þrátt fyrir að aðsókn á tónleika hennar væri fremur dræm til að byrja með, en hugmyndin hafði verið að sveitin gæti staðið undir sér fjárhagslega, að aðgangseyrir dygði til að halda henni gangandi. Aðsókn jókst smám saman og mest mættu um sjö hundruð áhorfenda á tónleika sveitarinnar.

Aðstæður til tónleikahalds voru heldur varla boðlegar á þessum árum og voru tónleikar sveitarinnar yfirleitt haldnir í Samkomuhúsinu á Akureyri eða í Akureyrarkirkju, vandamálið var þannig ekki einungis skortur á áhorfendum heldur einnig skortur á sætum fyrir þá.

Í fyrstu voru um tuttugu manns í sveitinni en fór smám saman fjölgandi og voru hljóðfæraleikarar hennar mest um sextíu manns á stærstu tónleikunum. Meðlimir sveitarinnar voru sem fyrr segir kennarar Tónlistarskólans á Akureyri en nemendur komu einnig að henni, aukinheldur komu hljóðfæraleikarar víðs vegar frá Norðurlandi og væri í raun varla hægt að segja að sveitin hafi verið akureysk eingöngu.

Roar Kvam var aðalhljómsveitarstjóri Kammerhljómsveitar Akureyrar til haustsins 1989 en þá tók Guðmundur Óli Gunnarsson við stjórninni. Fjölmargir gestastjórnendur komu þó við sögu sveitarinnar, þar má t.d. nefna Pál P. Pálsson sem stýrði henni á árlegum Vínartónleikum, sem nutu mikilla vinsælda.

Kammerhljómsveit Akureyrar hafði ekki verið styrkt af yfirvöldum en auðséð var að slík starfsemi án aðkomu stjórnvalda gæti varla gengið til lengdar. Það gerðist sumarið 1993 þegar tilkynnt var um að samningar hefðu tekist um að ríkið og Akureyrarbær myndu styrkja hana en frá með haustinu myndi hún ganga undir nafninu Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. 1988 hafði verið stofnað félag um hljómsveitina og ári síðar var fyrst farið að tala um sinfóníuhljómsveit þannig að hugmyndin var augljóslega þá ekki ný af nálinni, reyndar var sveitin þá þegar orðin of stór til að hægt væri að tala um kammersveit.

Kammerhljómsveit Akureyrar var því lögð niður haustið 1993, þá hafði sveitin haldið um þriðja tug tónleika frá því hún var stofnuð 1986, flesta á Akureyri en einnig á öðrum stöðum á Norðurlandi. Tónleikadagskráin hafði verið fjölbreytt, allt frá hljómsveitaverkum til aría úr óperum en ýmsir gestahljóðfæraleikarar og -söngvarar höfðu komið við sögu þeirra.

Ekki liggur fyrir hvort til eru upptökur með Kammerhljómsveit Akureyrar.