Karlakórinn Þrestir [2] (1931-49)

engin mynd tiltækKarlakórinn Þrestir á Þingeyri við Dýrafjörð var líkast til varla nema söngfélag, í besta falli lítill karlakór, sem starfaði vestra um árabil.

Kórinn var stofnaður sumarið 1931 og var Baldur (Bernharður) Sigurjónsson organisti og trésmiður á Þingeyri stjórnandi hans. Ekki liggur fyrir nákvæmlega hversu lengi hann starfaði en síðustu heimildir um hann er að finna frá 1949, þá höfðu Þrestir líklega ekki starfað samfleytt síðustu árin. Ekki er heldur ljóst hvort Baldur var stjórnandi Þrasta allan tímann en ein heimild segir hann hafa starfað við kórstjórnun í fjörutíu ár, þar gæti verið um fleiri kóra að ræða.

Nafn kórsins var nokkuð umdeilt einkum í Hafnarfirði en þar í bæ hafði verið starfandi karlakór með sama nafni frá árinu 1912. Þegar Dýrfirðingarnir stofnuðu sína Þresti 1931 höfðu Hafnfirðingarnir hins vegar ekki verið starfandi í þrjú ár eða síðan 1928,  þar með reiknuðu meðlimir hins nýja kórs með að sá kór væri hættur störfum og tóku sér nafnið Þrestir. Við það voru Hafnfirðingarnir ekki sáttir og töldu sig hafa einkarétt á nafninu þrátt fyrir að vera „í pásu“, og þegar þeir hófu aftur að syngja 1933 voru tveir kórar starfandi á landinu undir sama nafni. Báðir kórarnir voru ennfremur í Sambandi íslenskra karlakóra (SÍK), Dýrfirðingarnir síðan 1931).