Ketill Jensson (1925-94)

Ketill Jensson2

Ketill Jensson

Ketill Jensson tenórsöngvari var meðal efnilegustu söngvara Íslands um miðja öldina en söngferill hans varð mun styttri og endaslepptari en búist var við.

Ketill var Reykvíkingur fæddur 1925 og þótti snemma liðtækur söngvari, reyndar eins og fleiri í hans ætt. Hann hafði stundað sjómennsku í einhvern tíma þegar hann hóf söngnám hjá Pétri Jónssyni óperusöngvara og eftir það var ekki aftur snúið. Fljótlega upp úr því var hann farinn að syngja einsöng með Karlakór Reykjavíkur.

Sönghæfni hans spurðist út og nokkrir styrktaraðilar kostuðu þriggja ára söngnám hans í Mílanó á Ítalíu þar sem hann stundaði sitt nám ásamt nokkrum öðrum Íslendingum um og fyrir 1950.

Ketill kom heim og söng opinberlega við góðan orðstír, hann fór tvívegis aftur til Ítalíu til frekari söngnáms og 1955 komu út tvær plötur með einsöng hans við undirleik Fritz Weisshappell, þær höfðu meðal annars að geyma tónlist úr óperunni Cavalleria Rusticana sem hann söng í hér á Íslandi en einnig söng hann eitt hlutverka í óperettunni Leðurblökunni um það leyti. Ennfremur kom út plata 1956 þar sem hann söng ásamt Guðrúnu Á. Símonar og Þjóðleikhúskórnum.

Á þessum tíma reis söngferill Ketils hvað hæst og allar söngleiðir hans virtust beinar og breiðar framundan. En í kjölfarið hætti hann að syngja af einhverjum ástæðum sem ekki eru að öllu leyti kunnar. Vitað er að verkefni voru af skornum skammti á þeim tíma og Ketill gæti ekki lifað af söngnum eingöngu hér heima, og því fór hann í nám tengt fiskmati og starfaði síðan við það hjá Ríkismati sjávarafurða um árabil sem einnig kann að hafa sitt að segja en þar fylgdu bæði óreglulegur vinnutími og fjarvistir frá heimili. Einnig lenti hann í einhverri senu vegna söngráðningar við Þjóðleikhúsið og virðist hafa bitið í sig að syngja ekki framar, en það er þó ekki að fullu ljóst.

Ketill hætti því öllum opinberum söng um þrjátíu ára skeið en birtist síðan öllum á óvörum 1986 með nýja plötu sem bar heitið Ketill Jensson syngur: Jónas Ingimundarson og Fritz Weisshappel leika með á píanó. Á þeirri plötu var að finna gömlu upptökurnar auk nýrra sem unnar voru í félagsheimilinu Hlégarði. Platan, sem Ketill gaf út sjálfur, hlaut sæmilega gagnrýni tónlistarrýna DV, Tímans og Morgunblaðsins, sem allir voru þó sammála að meiri fengur væri í eldri upptökunum þótt röddin væri vissulega til staðar ennþá.

Segja má að ytri aðstæður hafi orðið Katli fjötur um fót og orðið hafi mun minna úr söngferli hans en ella hefði getað orðið. Hann lenti einnig í öðru áfalli á lífsleiðinni þegar hann missti einn sona sinna í eldsvoða þannig að líf hans var þyrnum stráð. Ketill lést 1994.

Þess má geta að sönghæfileikar ættarinnar koma berlega í ljós þegar ætterni Ketils er skoðað, Kolbeinn Jón Ketilsson tenórsöngvari er sonur hans, og bróðursynir hans eru bræðurnir Guðbjörn og Gunnar Guðbjörnssynir.

Efni á plötum