Páll Jóhannesson (1950-)

Páll Jóhannesson 1979

Páll Jóhannesson 1979

Páll Jóhannesson tenórsöngvari hefur ekki verið áberandi í íslensku sönglífi síðustu áratugina enda hefur hann dvalist erlendis löngum stundum, hann hefur m.a.s. verið kallaður „týndi tenórinn“.

Páll fæddist í Öxnadalnum fyrir norðan 1950 en fluttist síðan inn á Akureyri ungur. Hann vann hefðbundin störf í heimahéraði framan af, varð búfræðingur og vann m.a. við smíðar þegar hann hóf að nema söng hjá Sigurði Demetz á Akureyri, hann var þá á tuttugasta og fjórða aldursári. Páll var einnig í Karlakór Akureyrar og Passíukórnum á Akureyri undir stjórn Roar Kvam á þessum árum en samhliða söngnáminu hjá Demetz lærði hann tónfræði og píanóleik.

Söngurinn varð síðan ofan á og Páll fór til Reykjavíkur til frekara söngnáms en þar lærði hann hjá Magnúsi Jónssyni í Tónlistarskólanum í Reykjavík.

Páll vakti fyrst athygli þegar hann sigraði hæfileikakeppni sem Dagblaðið og Hljómsveit Birgis Gunnlaugssonar héldu á Hótel Sögu haustið 1979. Í framhaldi af sigrinum í hæfileikakeppninni söng Páll nokkuð opinberlega á tónleikum og öðrum skemmtunum en náði sér ekki að skapa sér nafn nema á norðanverðu landinu.

Sjálfum fannst honum hann hafa staðnað í sönglistinni og varð því úr að hann fór til Ítalíu til framhaldsnáms 1981. Þar átti hann eftir að vera meira og minna næstu árin en hann var alkominn heim úr söngnáminu 1986. Þrátt fyrir að vel gengi í náminu og Páll hlyti viðurkenningar fyrir framlag sitt á Ítalíu reyndust starfsmöguleikar fremur litlir ytra og það var ástæðan fyrir því að hann kom heim.

Páll hafði dvalið hér á landi á sumrin á meðan hann stundaði sitt nám og haustið 1982 hafði hann haldið sínar fyrstu sjálfstæðu söngskemmtanir þegar hann hélt þrenna tónleika.

Páll Jóhannesson 1984

Páll Jóhannesson 1984

1984 gaf Páll út plötu sem hann vann ásamt Pálma Guðmundssyni í Stúdíó Bimbó á Akureyri en hún var tekin upp í Akureyrarkirkju og félagsheimilinu Logalandi í Borgarfirði. Platan, sem bar nafn Páls, hlaut ágæta gagnrýni í DV og Degi en leið fyrir skelfilegt plötuumslag, að mati gagnrýnanda Dags. Hún hlaut þó fremur litla athygli.

Nú þegar Páll var aftur kominn heim á norðlenskar slóðir hóf hann að kenna við Tónlistarskólann á Akureyri og hélt síðan reglulega tónleika um Norðurland, tilraunir hans til að komast að fyrir sunnan gengu brösuglega og t.a.m. lenti hann í hálfgerðu stríði við Íslensku óperuna, sem honum fannst ganga framhjá sér.

Páll sendi frá sér aðra plötu haustið 1987, Ég syng um þig, og gaf hana út sjálfur. Hún var hljóðrituð í Hlégarði í Mosfellsbænum og Langholtskirkju af Halldóri Víkingssyni sem einnig hafði komið að upptökum fyrri plötunnar. Ég syng fyrir þig fékk meiri athygli en fyrri platan og hún fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu, Degi, DV, Þjóðviljanum og Tímanum.

Það urðu síðan þáttaskil á ferli og lífi Páls haustið 1989 þegar hann var ráðinn til óperuhússins Stora teatret í Gautaborg í Svíþjóð en það var þá næst stærsta óperuhús Svíþjóðar. Þar starfaði hann í eitt ár en hélt þá til Stokkhólms þar sem hann varð fastráðinn við Konunglegu óperuna.

Síðan þá hefur Páll dvalist erlendis en komið einstöku sinnum heim til Íslands, haldið hér tónleika og hlotið iðulega góða dóma, reyndar sá gagnrýnandi Morgunblaðsins ástæðu til að kalla Pál „týnda tenórinn“ og vísaði þá til þess hversu fáir vissu af þessum góða tenór sem hafði einhvern veginn týnst fyrir norðan og erlendis, og því ekki hlotið þá íslensku viðurkenningu sem hann ætti skilið.

Efni á plötum