Páll Stefánsson (1886-1973)

Páll Stefánsson

Páll Stefánsson

Páll Stefánsson var kvæðamaður af gamla skólanum og kom m.a. annars fram á skemmtunum á sínum tíma en hann varð einnig með fyrstu mönnum til að fara með slíkan kveðskap á plötu.

Páll (Böðvar) Stefánsson var fæddur 1886 í Kjósinni og bjó þar fram yfir fermingu en þá fór hann að heiman, lærði trésmíði og starfaði við þær um tíma einkum á austanverðu landinu áður en hann kom aftur suður og fluttist til Reykjavíkur um 1910.

Páll varð þekktur kvæðamaður, fór með kveðskap sinn á skemmtunum ásamt fleirum s.s. Bjarna Guðmundssyni og Jósep Húnfjörð en þeir Jósep og Páll tókust stundum og kváðust á opinberlega á skemmtunum og höfðu menn gaman af.

Þegar Fálkinn fékk hingað til lands upptökumenn frá Columbia til að taka upp alls kyns tónlistarefni í tilefni af Alþingishátíðinni 1930 var leitað til Páls og fleiri kvæðamanna, það var í fyrsta skipti sem tónlist var tekin upp á Íslandi til útgáfu.

Tvær 78 snúninga plötur komu út í kjölfarið með kveðskap Páls, ein með honum einum og önnur þar sem þeir Jón Lárusson fluttu rímur og annað efni.

Þremur árum síðar var leikurinn endurtekinn af hálfu Fálkans og þá kom út plata með Páli og Gísla Ólafssyni en þá sungu þeir tvísöng. Sú plata seldist upp og varð með öllu ófáanleg en var endurútgefin 1955. Allar plöturnar þrjár eru auðvitað löngu ófáanlegar. Eitthvað af efninu hefur þó verið endurútgefið á plötunum Íslenzk rímnalög: Icelandic rímur songs (safnplötu frá 1966) og Tvísöngur (með Schola Cantorum & Feðranna frægð frá 2004).

Páll virðist hafa komið nokkuð opinberlega fram á fjórða áratugnum en síðan fer minna fyrir honum á kveðskaparsviðinu. Hann kom þó að stofnun félagsskapar sem bar heitið Hagyrðinga- og kvæðamannafjelag Reykjavíkur en ekki liggur fyrir hversu lengi það félag starfaði. Varðveist hefur þó fjöldinn allur af upptökum með Páli frá ýmsum tímum.

Páll starfaði við trésmiðar og síðar hjá Rafveitu Reykjavíkur í áratugi, hann var alla tíð áhugasamur um forn fræði og ritaði greinar um þess konar efni. Hann lést vorið 1973.

Efni á plötum