Afmælisbörn 6. júní 2016

Bubbi Morthens

Bubbi Morthens

Þrjú afmælisbörn eru á lista Glatkistunnar á þessum degi:

Bubbi Morthens (Ásbjörn Kristinsson) á stórafmæli en hann er sextugur í dag. Honum skaut á stjörnuhimininn með eftirminnilegum hætti 1980 þegar hann spratt fram með hljómsveitinni Utangarðsmönnum og sólóplötu um svipað leyti. Í kjölfarið fylgdu sólóplötur sem skipta um fjórum tugum auk hljómsveita sem flestar hafa notið mikilla vinsælda, þeirra á meðal eru nefndar hér Egó, MX-21, Stríð og friður, GCD, Das Kapital og Sólskuggarnir. Bubbi er klárlega einn af toppum íslenskrar tónlistarsögu.

Baldvin A.B. Aalen trommuleikari er fjörutíu og tveggja ára á þessum degi en hans þekktasta hljómsveit er auðvitað Sóldögg. Meðal annarra sveita sem Baldvin hefur trommað með má nefna Hollívúdd, Syni Raspútíns, Veröld og Axlabandið, sem fæstar náðu mikilli hylli. Hann hefur á síðari árum haslað sér völl sem einn af eftirsóttustu upptökumönnum landsins.

Hreinn Pálsson óperusöngvari (f. 1901) átti einnig afmæli á þessum degi. Sagan segir að hann hafi verið sjómaður í Hrísey, stigið á land dag einn, farið suður til Reykjavíkur og haldið tónleika, og slegið í gegn. Hreinn var einn þeirra sem tóku þátt í fyrstu upptökunum sem fram fóru hér á landi 1930 í tengslum við alþingishátíðina sem haldin var það ár. Um þrjátíu 78 snúninga plötur komu út með söng Hreins en einnig kom út safnplata með úrvali laga hans. Hreinn lést 1978.