Plastik (1994-2008)

Aðalsteinn Guðmundsson2

Aðalsteinn Guðmundsson a.k.a. Plastik

Raftónlistarmaðurinn Aðalsteinn Guðmundsson (f. 1976) hefur verið fremstur í flokki sinnar tegundar í raftónlist hérlendis og komið fram undir ýmsum nöfnum, þar má nefna Yagya, Tree, Zitron, Rhythm of snow, Cosmonut og Sanasol þar sem hann er helmingur dúetts.

Plastik (Plastic) var fyrsta aukasjálf Aðalsteins í raftónlistinni og flokkaðist tónlist hans þar undir ambient en Aðalsteinn var einmitt stundum kallaði Alli Ambient, einnig Steini Plastik.

Plastik kom fyrst fram á sjónarsviðið 1994 á safnplötunni Egg ´94 og ári síðar kom út snældan Hérna en hún hafði að geyma sex lög. Sú snælda mun hafa verið seld í lofttæmdum umbúðum.

Plastik vann um það leyti einnig með hljómsveitinni Maus á plötunni Ghostsongs og átti síðar eftir að endurhljóðblanda tónlist með fleiri tónlistarmönnum s.s. Ampop.

Í framhaldinu var Plastik nokkuð áberandi í þeirri raftónlistarsenu sem hérlendis brast á, hann starfaði m.a. hjá Thule útgáfunni, átti lög á safnplötunum Icelandic dance sampler (1996), Fishcake (1998), g: the sound of Thule (1998) og Tilraunaeldhúsið 1999 (1999).

Plastik kom ennfremur fram á frumlegum tónlistaruppákomum, var einn þeirra sem lék tónlist sína undir gömlum klassískum þöglum kvikmyndum (e. Fritz Lang o.fl.) og tók þátt í Stefnumótum Undirtóna, kom þar m.a. við sögu á tveimur split-plötum, Stefnumót 3: Prince Valium & Plastik (2001) og Stefnumót 4: Plastik & Staff of NTOV (2001). Framlag hans á fyrri plötunni fékk varla nema sæmilega dóma í Morgunblaðinu en þeim mun betri á síðari plötunni.

Plastik gaf út a.m.k. tvær smáskífur fyrir erlendan markað, tólf tommuna River electric á vegum Thule útgáfunnar (1999) og sjö tommuna I am systematically in love with you hjá bresku útgáfunni Static caravan (2001) í takmörkuðu upplagi. Hann átti einnig efni á erlendum safnplötum í raftónlistargeiranum, plötum sem m.a. komu út í Hollandi og Austurríki.

Í seinni tíð hefur Aðalsteinn lítið notað Plastik nafnið og á safnplötunni Weirdcore sem út kom árið 2008 var það líklega notað í síðasta skiptið, og lagt niður að því loknu.

Efni á plötum