PPPönk (1996-99)

PPPönk

PPPönk

Pönksveitin PPPönk úr Hafnarfirði starfaði um þriggja ára skeið, vakti nokkra athygli og náði að gefa út eina smáskífu.

Sveitin var stofnuð vorið 1996 og einungis örfáum vikum síðar átti hún þrjú lög á hafnfirsku safnplötunni Drepnir. Eitt laganna, Surferboy fékk heilmikla spilun á útvarpsstöðinni X-inu og vakti athygli á sveitinni.

Meðlimir PPPönks í upphafi voru Björn Viktorsson bassaleikari, Jón Yngvi Reimarsson gítarleikari, Kjartan Þórisson trommuleikari, Freyr Gígja Gunnarsson gítarleikari og Laufey Elíasdóttir söngkona. Friðrik Snær Friðriksson söngvari gæti einnig hafa verið í sveitinni en ekki liggur fyrir á hvaða tímapunkti það var.

Freyr Gígja hætti fljótlega og tók Gísli Árnason við hans hlutverki en sá fyrrnefndi náði þó að vera á upptökum sem gefnar voru út 1997 undir titlinum PP.ep og hafði að geyma átta lög með sveitinni. Platan var tekin upp í Hljóðhamri af Ólafi Halldórssyni og Hrannari Ingimarssyni og hlaut hún ágæta dóma í Morgunblaðinu og Stúdentablaðinu.

PPPönk var dugleg að koma fram á tónleikum í heimabænum Hafnarfirði og reyndar annars staðar á höfuðborgarsvæðinu, vakti heilmikla almenna athygli og nógu mikla til að verða boðið að vera á safnplötunni Megasarlög, sem gefin var út Megasi til heiðurs (1997). Sveitin var ennfremur fengin til að hita upp fyrir hljómsveitina Skunk anansie í Laugardalshöllinni haustið 1997.

Sveitin starfaði fram á haustið 1998 en ári síðar kom hún aftur saman og spilaði í eitt skipti „í tilefni af útgáfu disksins Hvað“, sá diskur var sex laga og kom út í fimmtíu eintökum og var án umslags, upplýsingar um hann eru vegna þess afar takmarkaðar.

Efni á plötum