
Númi Þorbergsson
Númi Þorbergs (Númi Þorbergsson) var á árum áður einn kunnasti dægurlagatextahöfundur íslenskrar tónlistarsögu en margir textar hans eru enn vel kunnir í dag.
Númi fæddist (1911) og ólst upp í Stafholtstungum en bjó þó lungann úr ævinni í Reykjavík við ýmis störf. Fæst þeirra voru tónlistartengd en hann var þó lengi dansstjóri á skemmtistöðum.
Númi varð fyrst kunnur fyrir texta sína á fimmta áratugnum en upphaflega hafði hann aðallega samið gamanvísur. Eftir hann liggja á fimmta tug texta sem komið hafa út á plötum og skráðir eru hjá STEF, en textar hans eru þó mun fleiri.
Meðal þekktra texta hans má nefna Í landlegunni, Snjókarlinn (Komdu með mér út) og Sumar er í sveit, Nú liggur vel á mér, Landleguvalsinn, Kvöldkyrrð og síðast en ekki síst textinn við lagið Laus og liðugur sem Ragnar Bjarnason gerði vinsælt og félagarnir í Utangarðsmönnum gerðu að sínu árið 1980 með viðbótarerindi eftir Tolla Morthens, undir lagatitlinum Sigurður var sjómaður.
Númi vann til fjölda verðlauna fyrir texta sína í dægurlagasamkeppnum fyrri ára, eins og danslagakeppnum SKT.
Hann lést 1999 áttatíu og átta ára gamall.














































