Icy hópurinn (1986)

Icy hópurinn

Icy hópurinn

Icy hópurinn svokallaði og Gleðibankinn urðu frá fyrstu stundu klassík í íslenskri popptónlistarsögu enda varð ekki hjá því komist þar sem um var að ræða fyrsta framlag Íslendinga í hinni margfrægu Eurovision söngvakeppni sem haldin hafði verið síðan árið 1956. Það sem fyrst og fremst einkenndi umræðuna um hópinn og lagið á sínum tíma voru væntingarnar og svo vonbrigðin þegar úrslit keppninnar urðu mönnum ljós.

Lagið Gleðibankinn hafði sigrað undankeppnina hér heima vorið 1986 og hafði Pálmi Gunnarsson sungið lagið til sigurs en höfundur þess var Magnús Eiríksson, alls kepptu 287 lög í undankeppninni. Strax eftir keppnina hér heima varð ljóst að Pálmi myndi syngja framlagið í lokakeppninni sem haldin yrði í Bergen í Noregi en hinar norsku Bobbysocks höfðu sigrað keppnina árið á undan. Nokkru síðar var ákveðið að þau Helga Möller og Eiríkur Hauksson yrðu með Pálma á sviðinu og tríóið myndi skipta söngnum í laginu á milli sín.

Reyndar varð heilmikil dramatísk senna tengd söngvaravalinu í laginu en Magnús, sem hafði samið lagið upphaflega fyrir Mannakornsplötuna Bræðrabandalagið, ætlaði Pálma að syngja það einum. Öll völd voru hins vegar tekin af honum og Egill Eðvarðsson mun hafa stjórnað því að Eiríki og Helgu var bætt inn í lagið, og Magnús varð hvergi nærri sáttur við það.

icy-hopurinn3

Pálmi, Helga og Eiríkur

Einnig hafði Magnús fengið Þóri Baldursson til að útsetja lagið en áðurnefndur Egill fékk hins vegar Gunnar Þórðarson til þess. Þegar Magnús og Pálmi mótmæltu þeirri ákvörðun hótaði Ríkissjónvarpið því að lagið yrði dæmt úr leik þar sem það hefði borist oft seint í keppnina. Endirinn varð sá að Magnús kom ekki nálægt laginu meir, fór t.d. ekki með þegar það var hljóðritað aftur í London fyrir smáskífuna en fór reyndar með hópnum til Bergen í boði Sjónvarpsins. Enda fór svo að lagið tók miklum breytingum frá hinni fyrri útgáfu sem Pálmi söng einn þar til endanleg útgáfa með þremenningunum leit dagsins ljós.

Tveggja laga plata var tekin upp í London og gefin út af Fálkanum. Platan hafði að geyma íslenska og enska útgáfu af Gleðibankanum (Bank of fun) en enskan texta höfðu Magnús og Paul Richardson samið.

Ísland var sem fyrr segir að keppa í fyrsta skipti í hinni margfrægu Eurovision keppni sem landsmenn höfðu reyndar fylgst ágætlega með fram til þess tíma en keppnin hafði verið sýnd í beinni útsendingu í sjónvarpi til nokkurra ára, þar áður hafði keppnin verið sýnd einni til tveimur vikum eftir að hún var haldin. Eftirvæntingin var því mikil og öllu skyldi til tjaldað.

Ljóst var að kostnaður yrði mikill og því voru t.a.m. fengnir styrktaraðilar til að kosta kynningarmyndband sem gert var í tilefni þátttökunnar. Myndbandið var skotið við Svartsengi þar sem Bláa lónið var síðar opnað, og þegar upp var staðið var komið dýrasta og metnaðarfyllsta myndband sem unnið hafði verið hérlendis.

icy-hopurinn1

Á leið úr landi

Þá þurfti að hanna útlit á hópinn og var Dóra Einarsdóttir fengin til þess, einnig var Sóley Jóhannsdóttir hjá Dansstúdíó Sóleyjar fengin til að semja og æfa danssporin en Pálmi og Eiríkur höfðu ekki verið neitt sérstaklega þekktir fyrir kunnáttu í dansmennt fram að því.

Finna þurfti nafn á hópinn og meðal tillagna var Foreign exchange, sú tillaga var þó ekki notuð heldur Icy sem var reyndar vodkategund sem Ólafur Sigurðsson (þáverandi sjónvarpsfréttamaður) og Orri Vigfússon framleiddu og seldu. Þeir félagar lánuðu nafnið án endurgjalds og fengu sjálfsagt ágæta auglýsingu út á Icy hópinn.

Gleðibankinn fékk strax mikla athygli á erlendum vettvangi þó ekki væri nema fyrir að Ísland var í Eurovision-keppninni í fyrsta skipti, myndbandið við framlagið þótti framúrskarandi flott og íslenskir blaðamenn sigtuðu út hverja jákvæðu setninguna á fætur annarri upp úr erlendum miðlum og birtu í dagblöðum hér heima. Samhliða því magnaðist eftirvæntingin og um leið uxu væntingarnar upp úr öllu valdi. Ekki minnkuðu væntingarar þegar veðbankarnir hófu að birta vinningslíkur laganna en þar var íslenska lagið ofarlega.

Í framhaldinu fór allt samfélagið á flug og fólkið í kringum Icy hópinn ekki síst. Magnús Örn Antonsson þáverandi útvarpsstjóri sagði á blaðamannafundi að þetta væri eitt besta tækifæri sem þjóðin gæti fengið til að sýna að hún stæði jafnfætis öðrum þjóðum, Eiríkur Hauksson spáði Gleðibankanum fimmta til áttunda sæti í keppninni og þótti fremur svartsýnn og poppskríbentar dagblaðanna fóru hreinlega á kostum í umfjöllun sinni. Einn þeirra sagði „að vel athuguðu máli“ að lagið ætti í raun mjög góða möguleika á efsta sætinu, um leið og hann gagnrýndi lög og myndbönd hinna þjóðanna með hæfilegum hroka og kaldhæðni, annar skrifaði í fullri alvöru: „ef við náum ekki fyrsta sætinu verða vonbrigðin mikil.“

icy-hopurinn-og-sandra-kim

Icy hópurinn ásamt Söndru Kim en hún sigraði Eurovision

Keppnin nálgaðist og veðbankar héldu áfram að spá Icy hópnum og Gleðibankanum velgengni, kunnur breskur veðbanki spáði laginu sjötta sæti en flestir hér heima töldu það óþarfa svartsýni. Fréttir bárust einnig af því að EMI útgáfan í Bretlandi sem fengið hafði útgáfuréttinn af smáskífunni í Evrópu vildi framleiða hana í 250 þúsund eintökum, sem betur fer var beðið með það þar til eftir keppnina. Fálkinn átti sem fyrr segir útgáfuréttinn hér heima og gerði ráð fyrir að breiðskífa yrði gefin út með Icy um sumarið.

En smáskífan Gleðibankinn / Bank of fun kom út hér heima og seldist í um fjögur þúsund eintökum. Platan fékk almennt ágætar viðtökur gagnrýnenda, fékk t.d. góða dóma í DV. Lagið fór ennfremur á topp vinsældarlista Rásar 2 og sat þar í einhverjar vikur.

Og svo kom að því að Eurovision hópurinn ásamt fríðu föruneyti fór utan en keppnin í Noregi var haldin í byrjun maí. Þegar Icy hópurinn sté upp í flugvélina á leið til Bergen birti DV mynd af tríóinu á forsíðu með eftirfarandi myndatexta; „Pálmi og Eiríkur gefa sigurmerki áður en haldið var í loftið snemma sunnudagsmorguns. Helga lætur sér nægja sigurbros á vör.“

Eurovision kvöldið rann upp, þjóðin fylgdist grannt með á sjónvarpsskjánum þegar keppnin hófst og enginn var á ferli utandyra þegar Gunnar Þórðarson birtist í mynd og bjó sig undir að stjórna norsku útvarpshljómsveitinni.

icy-hopurinn4

Margir nýttu sér ófarir Gleðibankans – úr Morgunblaðinu

Icy hópurinn stóð sig ágætlega á sviðinu við flutning á Gleðibankanum en sjokkið kom þegar stigagjöfin hófst. Nokkrar þjóðir höfðu opinberað stigin sín áður en Ísland fékk sín fyrstu stig og þá strax varð fólki ljóst að Gleðibankinn var ekki að fara að vinna Eurovision.

Niðurstaðan varð sú að fyrsta framlag Íslendinga í Eurovision hafnaði í sextánda sæti eins og frægt er orðið, af tuttugu þátttökuþjóðum. Þjóðin fékk sjokk og þegar hún hafði jafnað sig af mesta áfallinu þurfti að finna skýringu á því hvers vegna „Evrópa var ekki tilbúin fyrir Ísland“, eins og ein fyrirsögnin hljóðaði, önnur fyrirsögn var „Tómur blús í Gleðibankanum“ og sú þriðja „Hefði getað farið verr, við hefðum getað unnið“.

Í viðtölum eftir keppnina höfðu aðilar tengdir laginu sínar skoðanir á því hvað hefði farið úrskeiðis, Eiríkur Hauksson sagði að lagið hefði verið of nútímalegt og skýringar eins og að norska útvarpshljómsveitin hefði ekki verið nógu góð, söngvararnir hefðu ekki staðið sig nógu vel og að klæðnaðurinn hefði skemmt fyrir þeim, heyrðust. Orð Hrafns Gunnlaugssonar formann íslensku sendinefndarinnar í Bergen vöktu heilmikla ennfremur athygli en hann vildi líkja þessu við læknisaðgerð: Aðgerðin tókst vel en sjúklingurinn lifði hana ekki af! Reyndar segir sagan að einn söngvaranna þriggja hafi sagt strax að lokinni keppninni að „þá er þessum fíflasirkus lokið, þetta geri ég ekki aftur!“ Margir reyndu að finna einhvern sökudólg en aðrir sáu þann kost vænstan að grínast með málið, sá brandari gekk t.a.m. að einhverjir hefðu strax þegar úrslitin voru ljós, beðið um einn Icy í Tabi á barnum.

Það var engin móttökuhátíð þegar Icy hópurinn kom heim eftir þessa sneypuför og þegar tríóið fór sveitaballarúnt um sumarið með hópi sem kallaðist Faraldur, þurfti að blása hann af eftir fáein böll þar sem aðsókn var langt undir væntingum. Engin breiðskífa leit heldur dagsins ljós eins og gert hafði verið ráð fyrir og flestir reyndu að gleyma Gleðibankanum. Í árslok stóð útvarpsstöðin Bylgjan fyrir vali á leiðinlegustu lögum ársins og sigraði Gleðibankinn auðvitað þá keppni.

Síðan 1986 hefur Gleðibankinn þó unnið sér aftur stað í hjörtum landsmanna og flestir eru búnir að gleyma sjokkinu sem þeir urðu fyrir á þessu vorkvöldi. Margar útgáfur hafa verið gerðar af laginu, Buff, Spaugstofan (Sama og þegið) og Sinfóníuhljómsveit Íslands hafa gefið lagið út á plötum sínum og það hefur ennfremur verið gefið út á fjölda safnplatna síðan.

Icy hópurinn hefur komið saman í nokkur skipti á síðari árum og flutt Gleðibankann opinberlega við miklar vinsældir.

Sjá einnig Söngvakeppni Sjónvarpsins [3] (1986 – Gleðibankinn / Bank of fun) [tónlistarviðburður]

Efni á plötum