Immanúel oss í nátt

Immanúel oss í nátt
(Lag / texti: þjóðlag / þjóðvísa)

Immanúel oss í nátt
eðla barnið fæddist;
gjörir það hjartað glatt og kátt
guðsson holdi klæddist;
fyrir hann tók faðir í sátt
fólkið allt, sem mæddist;
synd og dauði missti mátt,
þau mest ég áður hræddist.

Hans er nú ei hyggjan stríð
sem himnaguðs var forðum,
þegar drekktist veröld víð
í vatnsstraumunum hörðum
eða þá rigndi eldlig hríð
eilíf hefnd misgjörðum
og Dathan sökk með lasta lýð,
lífs gleymandi orðum.

Vil ég mitt sálar simphoni,
sett með bestu snilli,
leggja fram og leika því,
láta ei stund á milli
að göfga þann sem fékk oss frí,
föðurins náð og hylli;
hljóða góð um borg og bý
börnin í Christo dilli.

Syngi þessa þakkargjörð
því með engla chorum;
heiður, lof og háleit dýrð
sé hæstum guði vorum;
fenginn er nú fyrst á jörð
fríður smám og stórum;
faðirinn elskar auma hjörð,
oss sem villtir fórum.

[m.a. á plötunni Þrjú á palli – Hátíð fer að höndum ein]