Jólaómar

Jólaómar
(Lag / texti: erlent lag / Kristján frá Djúpalæk)

Ég stend við opinn gluggann minn
og stjörnur skreyta hvelið blátt;
og börnin úti byggja í snjónum,
henda boltum, hlæja dátt.
Er þreytan þau í rúmið rekur
raula ég um jólin lágt:

Ó, hve allt nú friðsælt er
og óm um húsið ber
er það söngurinn sami vinur minn,
sem að syngur að vetri jólin inn.

Er það heilast helgilag
er heyrðist fyrst þann dag
þegar frelsari fæddist okkar jörð
er það fjárhirða bæn og þakkargjörð.

Vinur, ég man þann óm frá æsku,
auðlegð þá fel mér í skaut.
Oft síðan hann vakað í hug mér hefur
og huggað í angist og þraut.

Það er himna helgimál
sem heillar mannsins sál.
Ber um ókunna vegi veikan hljóm
eins og vindurinn hjali milt við blóm.

Ó, hve er dýrleg á dimmum vetri
dagsbrún í austri að sjá
og hlusta á englanna helgisöngva
hljóma – og jólagjafir fá.

Þegar hljóm að hjarta ber
sem hlýjar mér og þér,
það er boð um að bráðum komi jól,
það er boð um að aftur hækki sól.

Að bráðum komi jól…

[af plötunni Elly Vilhjálms – Jólafrí]