Nú koma heilög jól

Nú koma heilög jól
(Lag / texti: Valgeir Skagfjörð)

Dýrðlegt er í desember
þótt dimmt sé orðið allt og hljótt
því hátíð senn í hönd nú fer
þá helgu jólanótt.
Við fögnum komu frelsarans
og finnum hjörtun örar slá.
Börnin okkar eru börnin hans,
bæði stór og smá.

viðlag
Það eru að koma jól,
það eru að koma jól.
Það er ljós í okkar hjörtum
því nú koma heilög jól.

Lýsa bæinn ljósin björt,
loftin gyllir vetrarsól
nú mun víkja nóttin svört,
þau nálgast þessi jól.
Kyngir niður hvítri mjöll,
klukkur hljóma um alla borg.
Er brosa litlu börnin öll
þá burtu er allra sorg.

viðlag x2

[af plötunni Elly Vilhjálms – Jólafrí]