Vetrarsöngur

Vetrarsöngur
(Lag / texti: erlent lag / Jónatan Garðarsson)

Er langir vetrarskuggar leggjast yfir þína slóð,
og kaldir fingur vindsins slökkva í þér alla glóð,
leitar hugur þinn til sumars sem liðið er á braut
til minninga sem hverfa líkt og dögg í græna laut?
Er vetur – sækir þig heim.

Þegar gnauðar vindsins söngur, þyrlar um þitt mjúka hár,
þú ferð ekki á fætur því að glugginn fellir tár.
Leitar hugur þinn til rónans sem á sér hvergi skjól,
eða dregur þú sængina hærra og dreymir um sumarsól?
Er vetur – sækir þig heim.

Þegar ísilagðar tjarnir draga til sín ástfangna vini
og snjókornin þau falla kristaltær í mánaskini.
Leitar hugur þinn til þeirra, sem búa við sorg og hungur
til litla fallega drengsins sem mun deyja svona ungur?
Er vetur – sækir þig heim.

Meðan hangikjötið er soðið og rjúpan færð á fat
og jólagjafir opnaðar – þú borðar á þig gat.
Leitar hugur þinn til Jesú, sem átti aðeins kærleikann?
Hann var negldur fyrir að tala og vingast við almúgann.
Þegar vetur – sækir þig heim.

[af plötunni Jól alla daga – ýmsir]