Hljómsveit Rafns Sveinssonar (1961-)

Rafn Sveinsson (Rabbi Sveins) trommuleikari á Akureyri lék með fjöldanum öllum af hljómsveitum nyrðra og starfrækti einnig sveitir í eigin nafni.

Fyrsta sveit Rafns var tríó sem sem starfaði haustið 1961 og gekk undir nafninu Tríó Rabba Sveins, engar upplýsingar er að finna um meðlimi þeirrar sveitar en svo virðist sem um stakt verkefni hafi verið að ræða  því næst var hljómsveit í hans nafni starfandi um áratug síðar, það var hljómsveit sem stofnuð var upp úr hljómsveitinni Löxum en hún lék á sínum fyrsta dansleik á Hótel KEA á Akureyri á nýárskvöld 1972 og var síðan húshljómsveit þar fram á vorið að minnsta kosti. Meðlimir hljómsveitarinnar voru auk Rafns sem lék á trommur, Þórarinn Magnússon [?], Örn Magnússon [?] og Erla Stefánsdóttir söngkona.

Árið 1976 var Rafn á ferð með tríó sem lék á Hótel KEA og svo virðist sem sú sveit hafi leikið undir hjá Rafni sem söng tvö lög á safnplötunni Eitt með öðru sem Tónaútgáfan á Akureyri gaf út um haustið með norðlenskum og austfirskum flytjendum, engar upplýsingar er að finna um meðspilara Rafns í því tríói. Þetta tríó starfaði að minnsta kosti 1976 og 77, og árið 1979 var Rafn enn á ferð með hljómsveit á Hótelinu um vorið og sumarið – sem fyrr er engar upplýsingar að finna um meðlimi hennar.

Næstu árin lék Rafn með sveitum eins og Astro og Casablanca en árið 1986 kom einnig fram sveit sem kölluð var Big band Rafns Sveinssonar sem fjallað er um annars staðar á síðunni. Það var ekki fyrr en 1991 sem ballhljómsveit í nafni Rafns tók næst til starfa en sú var mjög öflug í dansballageiranum og lék mikið á árshátíðum, þorrablótum og þess konar dansleikjum næstu árin eða allt til ársins 1997 að minnsta kosti. Eins og áður finnast engar upplýsingar um meðspilara Rafns nema að Árni Þorvaldsson lék líklega á bassa en sá hafði starfað með Rafni í öðrum hljómsveitum einnig. Þessi sveit er ýmist nefnd Tríó Rafns Sveinssonar eða Hljómsveit Rafns Sveinssonar.

Eftir aldamót eru fáeinar heimildir sem greina frá hljómsveitum Rafns en þar virðast eingöngu vera um stakar uppákomur að ræða, þannig lék sveit í hans nafni á afmælishátíð Menntaskólans á Akureyri árið 2002 og svo störfuðu hljómsveitir í hans nafni 2018 og 2020 innan harmonikkusamfélagsins í Eyjafirði.