Baldur Geirmundsson (1937-)

Baldur Geirmundsson

Tónlistarmaðurinn Baldur Geirmundsson hefur um áratuga bil verið einn af þekktustu sonum Vestfjarða en hann stýrði m.a. hljómsveit sinni BG-flokknum (BG & Ingibjörg o.s.frv.) sem naut nokkurra vinsælda á áttunda áratug síðustu aldar.

Baldur (Björn) Geirmundsson fæddist að Látrum í Aðalvík árið 1937 en fluttist níu ára gamall til Hnífsdal þar sem hann bjó fram til fullorðins aldurs en þá fluttist hann til Ísafjarðar þar sem hann hefur alið manninn síðan.

Baldur fékk snemma áhuga á tónlist og um ellefu ára aldur var hann farinn að fikta við harmonikku bróður síns. Það var síðan um fermingu sem hann var farinn að spila á böllum í nærsveitum ýmist einn eða í félagi við aðra, um sextán ára aldur gekk hann í fyrstu hljómsveitina en á þeim tíma voru hljómsveitir ekki endilega með fasta skipan og nöfn. Á þeim tíma lék Baldur einnig með Lúðrasveit Ísafjarðar og starfaði reyndar með henni í fjölda ára. Hann lék í fyrstu mestmegnis á harmonikkuna en síðar einnig á hljómborð og saxófón í hljómsveitum sínum. Baldur var að mestu sjálflærður í tónlist en um tvítugt fór hann til Reykjavíkur í einn vetur og nam þá tónfræði.

Sjálfur stofnaði Baldur hljómsveit í eigin nafni um eða eftir miðjan sjötta áratuginn, í fyrstu var um að ræða tríó sem gekk undir nafninu BKB-tríóið en eftir því sem mannaskipan breyttist fékk sveitin nöfn við hæfi, s.s. KBK-tríóið, BG-kvintettinn, BG-flokkurinn, BG og Árni og BG & Ingibjörg en undir síðast nefnda nafninu varð sveitin þekktust, lék inn á nokkrar plötur og naut nokkurra vinsælda á landsvísu. Sveitir Baldurs störfuðu allt fram yfir miðjan tíunda áratuginn.

Baldur með nikkuna

Þótt Baldur legði niður hljómsveit sína var hann síður en svo hættur að spila, hann kom fram á ýmsum uppákomum ýmist einn eða með smærri böndum, þannig hefur hann t.a.m. leikið undir hjá Sunnukórnum á Ísafirði og starfaði t.d. lengi í djassbandi fyrir vestan með Villa Valla (Vilberg Vilbergssyni) og fleirum. Hann hefur ennfremur verið öflugur í félagsstarfi harmonikkuáhugamanna, spilað þar á samkomum og þá var hann fenginn til að koma að verkefni sem SIHU (Samband íslenskra harmoniku unnenda) stóð fyrir, að leika inn á plötuna Harmonikan í leikskólum landsins (2013) en sú plata var gefin út til kynningar og eflingar á því hljóðfæri fyrir yngsta fólkið.

Baldur hefur samið fjöldann allan af lögum og einhver þeirra birtust á plötum BG & Ingibjargar, þá sendi hann frá sér fjórtán laga plötu, Haust árið 2010 en á henni samdi hann sjálfur öll laganna utan eitt.

Þegar Baldur varð sjötugur fékk hann eigin heimasíðu (www.bgmusik.is) í afmælisgjöf frá fjölskyldu sinni og af sama tilefni fékk hann þá titilinn bæjarlistamaður Ísafjarðarbæjar. Hann hætti að mestu að koma fram opinberlega árið 2009.

Efni á plötum

Sjá einnig BG og Ingibjörg