Bara-flokkurinn (1980-84)

Bara-flokkurinn

Bara-flokkurinn (Baraflokkurinn) frá Akureyri var fyrsta hljómsveitin frá Akureyri fyrir utan Hljómsveit Ingimars Eydal sem náði almennri athygli og hylli en hún var þó svolítið eyland mitt í flóru pönksins sem var í gangi um og eftir 1980 og fannst mörgum sveitum eiga illa heima í kvikmyndinni Rokk í Reykjavík. Hún var þó ágætt dæmi um íslenska nýbylgju og nýrómantík, og ruddi brautina fyrir sveitir eins og Pax Vobis og Rikshaw, og jafnvel Herbert Guðmundsson. Bara-flokkurinn sendi frá sér þrjár plötur.

Þótt Bara-flokkurinn teljist formlega hafa verið stofnaður sumarið 1980 þegar sveitin fékk nafn sitt hafði hún í raun verið starfandi allt frá haustinu 1977 en Ásgeir Jónsson söngvari og gítarleikari hafði þá ásamt nokkrum félögum sínum starfrækt hljómsveit sem spilaði blandaða tónlist en kom líklega aldrei opinberlega fram. Sú sveit mun í upphafi hafa innihaldið átta manns og meðal annarra voru þar Bragi Halldórsson, Gunnar Þorsteinsson, Ólafur Magnússon, Árni Daníel Júlíusson (Q4U o.fl.) og Steinþór Stefánsson sem síðar gerði garðinn frægan með Fræbbblunum.

Það var síðan sumarið 1980 sem fyrr segir, sem sveitin fékk nafn sitt og þá var aðeins Ásgeir eftir af upprunalega hópnum, aðrir voru þá Árni Henrikssen (Arne Júlíus Henriksen) trommuleikari, Baldvin H. Sigurðsson bassaleikari, Jón Freysson hljómborðsleikari og Þór Freysson gítarleikari, þeir tveir síðast töldu eru bræður.

Sveitin skapaði sér fljótlega skýra stefnu um þetta leyti og lék sína frumsömdu nýbylgjutónlist mestmegnis á heimaslóðum á Akureyri, þeir vöktu þar nokkra athygli og eignuðust fastan aðdáendakjarna sem var ekki stór en traustur. Staðsetning sveitarinnar var sveitinni bæði kostur og ókostur í senn, þeir félagar höfðu góða aðstöðu til að vinna tónlist sína en um leið höfðu þeir ekki um marga staði að ræða til tónleikahalds í heimabyggðinni og þ.a.l. þurftu þeir að fljúga oft suður með tilheyrandi kostnaði en ferðalög milli landshluta var langstærsti útgjaldaliðurinn hjá sveitinni.

Bara-flokkurinn á tónleikum

Bara-flokkurinn hafði leikið á tónleikum með Utangarðmönnum og í kjölfarið á því hafði Bubbi Morthens bent Steinari Berg útgefanda á sveitina sem bauð þeim útgáfusamning vorið 1981. Um það leyti fór sveitin heldur betur að láta að sér kveða og hitaði þá m.a. upp fyrir bresku sveitin Any trouble sem hér spilaði, einnig léku þeir félagar á frægum tónleikum í Laugardalshöllinni um sumarið sem báru yfirskriftina Annað hljóð í strokkinn.

Þeir Bara-flokksmenn tóku upp sex laga plötu í Hljóðrita í Hafnarfirði í júnímánuði og þá um leið hófst samstarf þeirra við Tómas M. Tómasson sem átti eftir að verða þeirra nánasti samstarfsmaður og nánast sjötti meðlimurinn. Þeir Bara-flokks-liðar sömdu efnið að mestu saman og var Ásgeir þar fremstur í flokki, lögin voru í þeim anda nýbylgju sem þeir höfðu tileinkað sér en textarnir voru á ensku.

Platan, sem bar nafn sveitarinnar kom út síðsumars og hlaut hvarvetna prýðis dóma, mjög góða í Dagblaðinu, Morgunblaðinu, Helgarpóstinum og Poppbók Jens Guð, og ágæta í Þjóðviljanum og tímaritinu TT. Lagið It‘s all planned náði einna mestri útvarpsspilun en varð ekki að neinum stórsmelli.

Bara-flokkurinn

Sveitin starfaði áfram og lék sem fyrr reglulega á tónleikum á höfuðborgarsvæðinu en galt þess um leið að vera að norðan þannig að hún bar lítið úr býtum, ekki bætti úr skák að tónleikar sveitarinnar í heimabyggð voru illa sóttir. Á höfuðborgarsvæðinu lék Bara-flokkurinn ásamt öðrum sveitum en fæstar þeirra voru á sömu línu heldur voru það sveitir sem áttu meira skylt við pönkið og þá bylgju, það voru einna helst sveitir eins og Tappi tíkarrass og Egó (sem var stofnuð eftir að Utangarðsmenn sprungu í loft upp haustið 1981) sem áttu einhvern tónlistarlegan skyldleika við Bara-flokkinn.

En það var mikil vakning í tónlistinni á þessum tíma, Friðrik Þór Friðriksson var um þetta leyti að vinna kvikmyndina Rokk í Reykjavík og sveitinni bauðst að taka þátt í því ævintýri. Þeir höfðu reyndar nýlokið því verkefni þegar trommuleikaraskipti urðu í sveitinni í ársbyrjun 1982, Árni hætti en sæti hans tók ungur og efnilegur trymbill Sigfús Óttarsson sem þá var einungis fjórtán ára gamall.

Þegar Rokk í Reykjavík var frumsýnd um páskana 1982 vakti Bara-flokkurinn nokkra athygli fyrir lag sitt, Moving up to a motion en sveitin var nokkuð á skjön við aðrar sveitir í myndinni sem flestar voru á pönkaðri og rokkaðri línu, þótt sveitin nyti nokkuð góðs af því að vera öðruvísi voru sumir á því að tónlist hennar ætti ekki heima þar, reyndar voru einnig margir á því að „gömlu hundarnir“ í Start og Þursaflokknum ættu heldur ekki erindi í myndina en síðan hafa þær raddir hljóðnað og Rokk í Reykjavík þykir sýna ágæta mynd af því sem var að gerast í íslensku tónlistarlífi.

Bara-flokkurinn fór að vinna að nýrri plötu með vorinu og í þetta sinn í Grettisgati, þar þreytti Sigfús frumraun sína en Tómas var upptökustjóri og þeirra hægri hönd sem fyrr í hljóðverinu.

Bara-flokkurinn 1983

Platan kom út um sumarið 1982 og hafði tónlist Bara-flokksins þar breyst nokkuð, hin kalda nýbylgja var á undanhaldi og hljómborð voru meira áberandi en á fyrri plötunni. Nýrómantíkin var að herja innreið sína í íslenskri tónlist og þarna var tónninn nokkuð sleginn, tónlistin og ekki síður útlit þeirra pilta var þannig meira í ætt við Duran Duran og Ultravox en flestir voru á því að sveitin væri á David Bowie línunni og þar var einkum söngrödd og -stíll Ásgeirs til umræðu. Aðspurðir sögðust Bara-flokksmenn ekki endilega vera að sækja þangað, a.m.k. ekki meðvitað. Lagasmíðarnar þóttu aðgengilegri en á fyrri plötunni og lögin Motion (Movion up to að motion) og sérstaklega I don‘t like your style nutu vinsælda og hafa verið síðan eins konar einkennislög sveitarinnar. Þarna var Ásgeir orðinn mest áberandi lagasmiður sveitarinnar og samdi jafnframt alla texta.

Platan hlaut nafnið Lizt og fékk undantekningalaust góða dóma en dómar birtust í Þjóðviljanum, Helgarpóstinum, Vikunni, Morgunblaðinu og Poppbók Jens Guðmundssonar.

Bara-flokkurinn fylgdi plötunni eftir með tónleikahaldi, fyrst um norðan- og austanvert landið en einnig á höfuðborgarsvæðinu, þá var sveitin ein þeirra hljómsveita sem komu fram á Melarokkshátíðinni um sumarið og einnig á Risarokk hátíðinni sem haldin var um haustið en sú var haldin til að reyna að rétta af tap það sem varð af gerð kvikmyndarinnar Rokk í Reykjavík. Þess má geta að Bara-flokkurinn lék ennfremur sem gestasveit á einu undanúrslitakvöldi Músíktilrauna sem þá voru haldnar í fyrsta sinn um haustið 1982.

Bara-flokkurinn ásamt Tómasi Tómassyni í London 1983

Veturinn 1982 – 83 var sveitin minna áberandi en áður en kom suður til tónleikahalds með reglulegu millibili eins og áður en á þeim tímapunkti voru menn eitthvað farnir að hugsa til útlanda, að koma sveitinni á framfæri á erlendri grundu. Bara-flokkurinn var inni í hugmyndum Steinars Bergs um útgáfu og meiktilraunir erlendis en aldrei varð neitt úr þeim hugmyndum, Steinar gaf út allar plötur sveitarinnar.

Það varð þó úr að hljómsveitin færi utan til Bretlands til að hljóðrita þriðju plötu sína og dvaldi hún þar í landi um mánaðarskeið. Þá stóð til að Bara-flokkurinn myndi leika á tónleikum með Mezzoforte á meðan dvöl þeirra stæði í Bretlandi en af því varð þó líkast til ekki. Þá voru uppi hugmyndir um tíma að sveitin tæki upp nafnið Lizt fyrir erlendan markað, eftir annarri plötunni en af þeirri nafnabreytingu varð þó aldrei.

Tómas Tómasson fór með þeim félögum utan sem upptökustjóri en Geoff Calver, Chris Birkett og fleiri voru upptökumenn, upptökurnar voru síðan kláraðar í Hljóðrita. Í þessari upptökuhrinu tók Bara-flokkurinn upp ellefu lög og níu þeirra litu dagsins ljós á þriðju plötu sveitarinnar, Gas sem kom út um haustið.

Á nýju plötunni var Bowie-keimurinn að mestu farinn af tónlist sveitarinnar og þeir höfðu þróað eigin stíl sem varð til að efnið fékk enn betri móttökur en fyrri plöturnar sem þó hefði varla verið hægt að kvarta yfir, Tíminn, Þjóðviljinn, Dagur og DV gáfu henni mjög góða dóma og Helgarpósturinn jafnvel enn betri en gagnrýnandi síðast talda blaðsins sagði hana plötu ársins. Ásgeir samdi nú orðið alla tónlistina en textarnir unnu þeir félagarnir saman. Gas seldist í um tvö þúsund eintökum.

Til að fylgja plötunni eftir fór Bara-flokkurinn í tónleikaferð um landið en að þeirri för lokinni fór lítið fyrir sveitinni um tíma. Þeir komu þó enn sem fyrr reglulega suður með tilheyrandi kostnaði en þeim ferðum hafði nokkuð fækkað, sveitin lék m.a. á Norrokk, samnorrænni tónlistarhátíð sem haldin var í Laugardalshöllinni um vorið 1984

Bara-flokkurinn 1984

Meðlimir Bara-flokksins höfðu margsinnis íhugað að flytja suður til Reykjavíkur en það hefði auðveldað þeim töluvert aðgengið að tónleikahaldi, hljóðversvinnu og öðru sem tengdist útgerð sveitarinnar, og það gerðist loks haustið 1984. Þar með var sveitin komin meðal fjölda annarra sveita sem reyndu fyrir sér á markaðnum og um leið misstu þeir Akureyrar-stimpilinn og þá sérstöðu sem því fylgdi. E.t.v. var það þetta sem olli því að sveitin liðaðist nú smám saman í sundur eða bara sú einfalda staðreynd að þessi tegund tónlistar var pínulítið á undanhaldi. Bara-flokkurinn hafði sem fyrr segir verið sér á báti tónlistarlega séð hér á landi, í pönk/rokk-byltingunni um 1980 þegar sveitin var að stíga sín fyrstu skref hafði diskóið og skallapoppið að mestu verið kæft og því óraunhæft að þróast í þá áttina, hvað þá í átt að pönkinu sem þá 1984 var þegar útdautt. Margar sveitir eins og Q4U, Mogo homo og síðan Pax Vobis og Rikshaw höfðu þróast og voru á svipaðri línu og Bara-flokkurinn en annars var gleðipoppið að fæðast og með þeirri tónlist átti sveitin ekkert sameiginlegt.

En það varð úr að Bara-flokkurinn fór í frí um jólin 1984 og kom aldrei úr því fríi. Meðlimir sveitarinnar sneru sér að öðru, Ásgeir söngvari sneri sér að hljóðversvinnu en kom einnig við í sveitum eins og Góðkunningjum lögreglunnar síðar, Þór gítarleikari var einnig í þeirri sveit og Jón hljómborðsleikari bróðir hans var um tíma í Skræpótta fuglinum, Baldvin starfaði um tíma með Drýsli og Grafík en Sigfús trommari varð mest áberandi þeirra félaga í framhaldinu, hann lék með Rikshaw eftir Bara-flokkinn en varð síðar þekktur með sveitum eins og Mannakornum, Jagúar, Stjórninni og mörgum fleirum.

Utanaðkomandi aðilar reyndu að vekja sveitina til lífs aftur um 1990 þegar þeim félögum var boðin álitleg upphæð fyrir að leika á tónleikum en þeir afþökkuðu. Það var ekki fyrr en áratug síðar, aldamótaárið 2000 þegar safnplatan Zahír kom út á vegum Íslenskra tóna að Bara-flokkurinn kom saman á nýjan leik. Á þeirri plötu voru valin lög af fyrstu tveimur plötunum en þriðja platan Gas í heilu lagi enda fannst þeim hún hafa elst best og ætti því erindi öll á Zahír. Á plötunni voru ennfremur tvö aukalög, útgáfa af laginu I don‘t like your style sem hafði komið út á safnplötunni Rás 4 (1984) og var nokkuð frábrugðin útgáfunni á Lizt, og lagið Just like you en það hafði ekki komið út áður. Lögin tvö höfðu verið hljóðrituð í Bretlandi 1983.

Lög Bara-flokksins hafa komið út á fjölda safnplatna og má meðal þeirra nefna Stuð stuð stuð (2011), Óskalögin 6 (2002), Tvær í takinu (1984), Á hjólum [snælda] (1982), Glymskrattinn (1982), Nælur (1998), Í blíðu og stríðu (1982) og Með lögum skal land byggja (1985), auk auðvitað Rokk í Reykjavík (1982).

Efni á plötum