Blóðtaktur (1993-)

Blóðtaktur

Hljómsveitin Blóðtaktur úr Kópavoginum er ekki meðal þekktustu sveita íslenskrar tónlistarsögu en hún hefur starfað í áratugi (með hléum).

Blóðtaktur var stofnuð vorið 1993 og nefndist fyrst um sinn Anal Arbeit en um sumarið fékk sveitin endanlegt nafn sitt. Hún starfaði líklega nokkuð samfleytt til ársins 1998 og spilaði þá nokkuð oft á opinberum vettvangi en minna hefur farið fyrir spilamennsku hin síðari ár. Sveitin var í pásu til ársins 2001 að öllum líkindum en kom þá saman og starfaði í einhvern tíma og svo aftur haustið 2016 en ekki liggur fyrir hvort hún er starfandi í dag.

Upplýsingar um meðlimi Blóðtakts eru af skornum skammti, sveitin er sem fyrr segir úr Kópavogi, mekka pönksins á Íslandi og liggja rætur hennar líkast til í pönkinu. Þannig munu Steinn Skaptason trommuleikari og Brjánn Birgisson bassaleikari vera meðal meðlima, einnig Trausti Júlíusson og Víðir [?], þá var Laufey Jóhannesdóttir söngkona í Blóðtakti að minnsta kosti um tíma. Einhverjar mannabreytingar munu hafa verið innan sveitarinnar og því liggur ekki fyrir hverjir voru samtíða í henni, þá er nokkuð öruggt að fleiri vantar í þessa upptalningu.

Blóðtaktur kom eitthvað við sögu á plötu Ingólfs Sigurðssonar (Insol), Jafnréttið er framtíðin (2003) en óvíst hvort hann var meðlimur sveitarinnar.

Óskast er eftir frekari upplýsingum um Blóðtakt.