Bændakór Skagfirðinga (1916-25)

Bændakór Skagfirðinga

Bændakór Skagfirðinga starfaði í um áratug snemma á síðustu öld en Karlakórinn Heimir var síðar stofnaður upp úr honum.

Það voru þeir Benedikt Sigurðsson á Fjalli og Pétur Sigurðsson á Geirmundarstöðum sem voru aðalhvatamenn að stofnun kórsins. Í byrjun var einungis að ræða tvöfaldan kvartett sem söng fyrst opinberlega 1916 undir stjórn Péturs en hann var þá aðeins sautján ára gamall.

Kórinn var síðan formlega stofnaður í ársbyrjun 1917 og var öllu fjölmennari en tvöfaldi kvartettinn sem söng ári fyrr, Pétur tók að sér kórstjórnina og stjórnaði honum alla tíð sem hann starfaði.

Skagafjörðurinn er víðfemur og þurftu kórmeðlimir oft að ferðast um langan veg til æfinga, áhuginn varð þó vegalengdunum yfirsterkari og varð til þess að kórinn starfaði svo lengi. Hann söng á ýmsum samkomum í héraðinu og Sæluvika Skagfirðinga varð fastur punktur í söngdagskránni.

Bændakór Skagfirðinga leið undir lok árið 1925 en bændurnir í Skagafirðinum gátu ekki verið karlakórslausir lengi eftir að sönghefðinni var komið á og Karlakórinn Heimir var stofnaður upp úr leifum kórsins tveimur árum síðar, og starfar enn.