Vonbrigði (1981-86 / 2001-)

Vonbrigði 1981

Í hugum flestra er hljómsveitin Vonbrigði sterkbundin ímynd kvikmyndarinnar Rokk í Reykjavík (1982) enda ómaði upphafslag myndarinnar (Ó, Reykjavík) flutt af sveitinni, í partíum og útvarpi lengi vel á eftir og hefur þannig orðið samofið pönkinu og þeirri bylgju sem fylgdi á eftir. Það var þó varla nema í byrjun sem spyrða má Vonbrigði við pönkið því tónlist sveitarinnar mætti fremur tengja nýbylgju með fönkívafi jafnvel. Ó, Reykjavík er þannig langt frá því að vera dæmigert fyrir sveitina sem þróaði tónlist sína hratt – að mestu neðanjarðar, starfaði í um fimm ár en birtist aftur löngu síðar og hefur verið afkastamikil á útgáfusviðinu síðustu árin, þannig má klárlega tala um tvö tímaskeið Vonbrigða.

Vonbrigði urðu til haustið 1981 upp úr hljómsveitunum Hrúgaldin og Englaryki en bræðurnir Þórarinn (trommur) og Árni (gítar) Kristjánssynir ásamt Gunnari Ellertssyni (bassi) höfðu starfað saman í fyrrnefndu sveitinni. Jóhann Vilhjálmsson (söngur) kom hins vegar úr Englaryki sem hafði reyndar þá starfað síðan 1978, í þeirri sveit hafði söngkonan Sigurlaug Jónsdóttir (Didda) verið um skamman tíma en hún átti eftir að starfa með Vonbrigðum sem nokkurs konar hirðskáld. Sveitin var að mestu ættuð úr Breiðholtinu og voru meðlimir hennar vart skriðnir af fermingaraldri þegar hún var sett á laggirnar.

Sveitin kom fyrst fram opinberlega í október 1981 en síðan heyrðist í raun ekkert til hennar fyrr en kvikmyndin Rokk í Reykjavík var frumsýnd um páskana 1982, þar má segja að sveitin hafi slegið í gegn í upphafsatriði myndarinnar þar sem þeir félagar flytja lagið Ó, Reykjavík. Atriðið eftirminnilega hafði verið tekið upp í Hafnarbíói og vakti hrifningu flestra þótt margir af eldri kynslóðum væru ekki hrifnir af sveitinni fremur en öðrum pönkurum. Fyrrgreind Didda samdi einmitt textann við lagið (sem og fleiri texta sveitarinnar) sem enn heyrist reglulega spilað í ljósvakamiðlum og víðar. Lagið hefur þannig orðið sígilt og mörgum áratugum síðar vildi símafyrirtæki kaupa það til nota í auglýsingaskyni en sveitarmeðlimir höfnuðu því enda klárlega ekki í anda pönksins. Sú saga hefur einnig heyrst af laginu að morguninn eftir borgarstjórnarkosningarnar vorið 1982 hafi Jón Múli Árnason (frekar en Pétur Pétursson) útvarpsþulur sem var þekktur vinstri maður, kynnt lagið í útvarpinu með þeim orðum að þar færu Vonbrigði með Reykjavík en sjálfstæðisflokkurinn með Davíð Oddsson í broddi fylkingar hafði þá unnið borgina í kosningunum, sem Jón Múli var ekki ánægður með.

Í Rokk í Reykjavík

Ó, Reykjavík var ekki eina framlag Vonbrigða í Rokk í Reykjavík því þar áttu þeir einnig lagið Guðfræði (upprunalegur titill lagsins var Guðfræðineminn og svínið), lag sem fór minna fyrir en er að margra mati ekkert síðra, lögin eru ólík og má segja að síðarnefnda lagið hafi þá verið mun dæmigerðara fyrir tónlistina sem Vonbrigði voru þá að spila á meðan Ó, Reykjavík var hreint pönk. Sveitin þróaðist þannig mjög hratt og sveitarmeðlimir voru ekkert áfjáðir í að leika slagarann vinsæla á tónleikum einfaldlega vegna þess að þeir voru þá þegar að gera allt aðra hluti. Í raun var þetta þannig að lög sveitarinnar voru orðin gömul og úr sér gengin þegar þau komu út á plötum, svo hratt þróaðist tónlistin.

Sveitin varð strax afkastamikil og prófaði sig stöðugt áfram með nýtt efni sem þeir prufukeyrðu síðan á tónleikum, þannig urðu lög eins og 6ý nokkuð þekkt meðal aðdáenda sveitarinnar þótt það kæmi ekki strax út á plötu.

Þeir félagar spiluðu ekki mikið opinberlega til að byrja með, þeir voru lengi í hrakhólum með æfingahúsnæði, deildu um tíma húsnæði á Álftanesinu með Þeysurum en það var langur vegur fyrir þá að fara úr Breiðholtinu enda voru þeir þá langt frá því að komast á bílprófsaldurinn, hljóðfæraskortur var einnig fyrirstaða en það var ekkert einsdæmi í pönksenunni og það bættu þeir upp með sköpunargleðinni og tilraunastarfseminni.

Um sumarið 1982 fóru fjórmenningarnir í hljóðver og tóku þar upp fjögur lög, og um svipað leyti spiluðu þeir með bresku hljómsveitinni Comsat angels sem hér hélt tónleika. Sveitin lék einnig eitthvað ásamt hljómsveitinni Þey á tónleikum og prufukeyrði þá nýtt efni en varð síðan að hætta að æfa og spila um tíma þegar þeir misstu æfingahúsnæði sitt. Platan kom út í nóvember á vegum Grammsins, þeir félagarnir voru sjálfir ekkert of ánægðir með útkomuna en hún fékk þó þokklega dóma í Helgarpóstinum, slakari í Morgunblaðinu.

Vonbrigði

Þegar sveitin komst í nýtt æfingahúsnæði við Rauðavatn fór hún af stað á fullt á nýjan leik og lék nokkuð á tónleikum um veturinn, skáldkonan Didda tróð þá stöku sinnum upp með þeim og flutti ljóð, og fleiri sveitir í svipuðum anda komu gjarnan fram með þeim. Blaðamenn reyndu gjarnan að skilgreina tónlist sveitarinnar og m.a. var talað um tónlistina sem rödd svartsýninnar annars vegar og að hún bæri keim af viðhorfi unglingsins hins vegar, flestir létu sér þó nægja að tala bara um nýbylgju.

Vorið 1983 fóru Vonbrigða-liðar í Hljóðrita í Hafnarfirði og tóku upp sjö lög á tuttugu og fimm tímum. Árni og Gunnar munu mest hafa samið grunnana að lögunum en hinir bætt síðan við, Didda lagði þeim nokkuð lið við textasmíðarnar en einnig samdi Jóhann einhverja texta. Platan kom síðan út síðsumars undir titlinum Kakófónía, og fór sveitin þá á fullt við að kynna hana, léku mestmegnis á höfuðborgarsvæðinu en einnig á Sæluviku-hátíðinni í Skagafirði, ásamt fleiri nýbylgjusveitum en pönkið var þá nánast liðið undir lok, rúmu ári eftir að Rokk í Reykjavík var frumsýnd.

Kakófónía fékk ágætis dóma í Helgarpóstinum, Æskunni og Poppbók Jens Kr. en platan ásamt þeirri fjögurra laga sem hafði komið út árið á undan eru báðar eftirsóttir safngripir og seljast dýrum dómum safnara í millum enda var upplag platna á þeim tíma yfirleitt lítið. Um þetta leyti gerðu þeir félagar plötusamning við breska útgáfufyrirtækið Shout records og kom platan þar einnig út.

Sveitin þróaðist hratt sem fyrr og fékk víðast hvar frábæra dóma fyrir frammistöðu sína á tónleikum, m.a. í Laugardalshöll á hátíðinni Við krefjumst framtíðar, en þar lék fjöldinn allur af sveitum ásamt bresku sveitinni Crass. Um haustið gerði sveitin víðreist og hélt til Stokkhóms til tónleikahalds. Hún var síðan kjörin rokkhljómsveit ársins 1983 í ársuppgjöri Vikunnar um áramótin.

Vonbrigði á Melarokki

Árið 1984 fór fremur rólega af stað hjá þeim Vonbrigða-mönnum, þeir léku ásamt bandarísku pönksveitinni Crucifix í Félagsstofnun stúdenta en að öðru leyti fór lítið fyrir sveitinni enda voru þeir þá enn og aftur að vinna með nýtt efni. Þeir birtust hins vegar á norrænu rokkhátíðinni Norrokk í byrjun júní en héldu sér að öðru leyti til hlés, sveitin var mun duglegri síðsumars og var reyndar meðal fjölmargra sveita sem áttu að leika á hinni margfrægu Viðeyjarhátíð um verslunarmannahelgina en hún var að lokum blásin af eins og þekkt er orðið. Sveitin hafði þá verið eitthvað í hljóðveri og altalað var að plata væri á leiðinni en hún lét bíða eftir sér. Þrjú áður óútkomin lög komu út á safnsnældunni Rúllustiganum þetta ár (1984) en einnig hafði lagið Guðfræði komið út á kassettunni Just when you thought it was… Quiet! í Bretlandi árið 1982. Fleiri lög áttu eftir að koma út með sveitinni á slíkum útgáfum innan lands sem utan næstu árin þótt sveitin væri jafnvel löngu hætt, m.a. á Ground zero (1985), Killed by death volume 41 (1998), Viking invasiona (án ártals), Bad taste nightmares (án ártals), Hardcore history volume 7 (án ártals), Geyser (1987) og Nælur (1998), margar þessara útgáfa voru neðanjarðarútgáfur.

Vonbrigði hvarf smám saman af sjónarsviðinu, sveitin lék lítið árið 1985 en mest þó um haustið, þeir komu fram á tónleikum í janúar 1986 en hurfu síðan alveg úr sviðsljósinu, sveitin hafði þá raunar verið neðanjarðar um nokkurt skeið. Meðlimir sveitarinnar fóru hver í sína áttina og komu nokkuð víða við hvað strauma og stefnu varðar. Gunnar bassaleikari varð líklega minnst áberandi meðlima, hann lék um tíma með Bleiku böstunum en hvarf síðan alveg úr tónlist, Þórarinn trymbill lék með sveitum eins og Risaeðlunni, Dýrðinni og Bubbleflies, Árni gítarleikari bróðir hans spilaði með Silfurtónum, Gus Gus og Rut+, og Jóhann söngvari kom við sögu Leiksviðs fáránleikans, þarna eru aðeins þekktustu sveitirnar nefndar.

Sveitin hvarf semsé af sjónarsviðinu í ársbyrjun 1986 enda var pönk og nýbylgjan að baki og aðrar straumar og stefnur tóku við eins og gengur og gerist, Ó, Reykjavík gleymdist hins vegar ekki svo auðveldlega sem fyrr er greint og hélt nafni sveitarinnar nokkuð á lofti þó ekki væri nema fyrir það lag.

Opnumynd í Vikunni

Það var síðan upp úr aldamótum, líklega 2001 sem þeir félagar fóru að hittast á nýjan leik og taka upp tónlist í ró og næði. Á árunum 2001 til 04 tók sveitin upp efni á næstu plötu sem kom út um haustið 2004 og bar titilinn Eðli annarra, sveitin gaf plötuna út sjálf, árið 2003 hafði sveitin einnig átt lag í kvikmyndinni Salt. Efnið á nýju plötunni var mest allt gamalt og hafði verið samið á fyrra skeiði Vonbrigða (1981-85) en í upptökuferlinu þróaðist tónlistin töluvert reyndar eins og var hálfgert einkenni sveitarinnar. Sveitin hafði á þessum tímapunkti bætt við sig manni en Hallur Ingólfsson gítarleikari (XIII o.m.fl.) hafið verið þeim innan handar í upptökunum og var um tíma fastur maður í sveitinni. Eðli annarra hlaut þokkalega dóma í Morgunblaðinu og mjög góða í DV.

Vonbrigði kom nú aðeins upp á yfirborðið og hóf að leika eitthvað á tónleikum, léku m.a. með The Fall um haustið 2004 og í kjölfarið fór sveitin af stað að vinna frekar með efni sitt en í viðtali við þá félaga kom í ljós að þeir hefðu samið um hundrað lög. Hallur lék eitthvað áfram með Vonbrigðum en kom ekki við sögu á fleiri plötum sveitarinnar nema sem upptökumaður o.þ.h. En boltinn var farinn að rúlla á nýjan leik og sveitin lék á nokkrum tónleikum árið 2005, þá fóru þeir einnig til Þýskalands og Pólland til tónleikahalds um vorið, léku á Innipúkanum um verslunarmannahelgina og á Iceland Airwaves um haustið.

Eftir þessa nokkuð þéttu spilamennsku fór minna fyrir sveitinni, að minnsta kosti hvað tónleikahald varðar. Sveitin kom aftur fram á sjónarsviðið síðsumars 2007 en að öðru leyti virtist hún starfa mest í hljóðveri, á árunum 2006 til 09 tóku þeir upp plötuna Tapír, sem kom út vorið 2009. Tapír var tólf laga plata en umslag hennar skartaði myndskreytingu eftir Gabríelu Friðriksdóttur, platan fékk þokkalega dóma í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu en vakti að öðru leyti ekki mikla almenna athygli. Sveitin fylgdi plötunni lítið eftir með tónleikahaldi, hélt þó útgáfutónleika um haustið.

Árið 2010 birtust fréttir þess efnis að þýska útgáfufyrirtækið Mauerstadtmusik í eigu Thomas Pargmann væri að gefa út sjö laga vínylplötu með Vonbrigðum undir titlinum “Ó, Reykjavík”. Sú plata hafði að geyma mestmegnis gamalt efni en einnig óútgefið gamalt efni. Litlar upplýsingar er að finna um útgáfu þessarar plötu.

Vonbrigði 2004

Í framhaldinu virðist sem sveitin hafi nær eingöngu starfað í æfingahúsnæðinu og hljóðveri en lítt eða ekkert komið fram opinberlega. Árið 2013 kom út fjórtán laga platan Hanagal, sem kom út í aðeins tuttugu eintökum en efni hennar hafði verið tekið upp í stúdíó Hanagal árið 1982 af Kjartani Kjartanssyni, umslag plötunnar var handgert. Ári síðar kom út endurbætt útgáfa af plötunni en með þremur aukalögum, upplagið var helmingi stærra í þetta skiptið – fjörutíu eintök. Þriðja útgáfan af Hanagali kom út það sama ár (2014), gefin út af Synthadelia records og var sú útgáfa átján laga. Hin Hanagölin tvö höfðu þeir Vonbrigðis-liðar gefið út sjálfir. Það var svo árið 2021 sem vegleg tvöföld vínylalbúm-útgáfa kom út af plötunni á vegum Reykjavík record shop – bæði í lituðum og svörtum vinyl, sú útgáfa var nítján laga.

Árið 2017 kom síðan út ellefu laga plata með Vonbrigðum, hún bar titilinn Sauðanes og vakti litla athygli. Svo virðist sem Gísli M. Sigurjónsson gítarleikari (Bacon, XIII o.fl.) hafi eitthvað verið viðloðandi sveitina síðustu misserin en ekki finnast haldbærar heimildir um það, sveitin er líkast til enn starfandi.

Það má með sanni segja að Vonbrigði hafi verið hrein og klár underground-sveit þetta síðara skeið hennar enda gerði hún lítið af því að koma fram opinberlega og fylgdi engum meginstraumum, lítill en tryggur hópur hefur fylgt sveitinni og samanstendur hann mest af gömlum aðdáendum á sama aldri og meðlimir sveitarinnar. Menn hafa síður en svo gleymt einkennislagi sveitarinnar sem enn heldur merkjum hennar á lofti, og e.t.v. mætti segja að Ó, Reykjavík hafi skipað sér sess meðal Reykjavíkurljóða Tómasar Guðmundssonar og laga þeirra sem samin hafa verið við þau.

Efni á plötum