Hljómsveitin Væringjar starfaði á Kirkjubæjarklaustri í upphafi síðasta áratugar 20. aldarinnar og lék þá mestmegnis á dansleikjum í heimabyggð.
Sveitin hafði áður gengið undir nöfnunum The Hope og Volvo og gengið í gegnum einhverjar mannabreytingar en meðlimir undir Væringjanafninu voru þeir Hjörtur Freyr Vigfússon gítarleikari og söngvari, Jón Geir Birgisson trommuleikari, Frosti Jónsson sem lék á hljómborð og píanó ásamt því að radda og Valdimar Steinar Einarsson bassaleikari og söngvari.
Væringjarnir störfuðu 1990 og 91 en lognaðist síðan útaf, sveitin kom síðan saman aftur snemma árs 2009 og lék þá á þorrablóti – ekki liggur fyrir hvort hún starfaði eitthvað meira í það skiptið. Hjörtur og Valdimar hafa þó eitthvað leikið saman í tilfallandi hljómsveitum síðan.














































