Völundur (1972-77)

Völundur

Hljómsveitin Völundur er án nokkurs vafa ein þekktasta hljómsveit sem starfaði á austanverðu landinu á áttunda áratug síðustu aldar, það er þó ekki fyrir gæði eða vinsældir sem sveitin hlaut athygli heldur miklu fremur vegna blaðaskrifa og ritdeilna um sveitina.

Sveitin starfaði á Egilsstöðum og voru meðlimir hennar þaðan og úr nágrenninu, hún var stofnuð haustið 1972 og voru upphaflegir meðlimir hennar Bjarni Helgason söngvari, Gunnlaugur Gunnlaugsson trommuleikari, Friðrik Lúðvíksson gítarleikari, Jón Ingi Arngrímsson bassaleikari og Jónas Þ. Jóhannsson hljómborðsleikari. Þannig var sveitin skipuð fyrsta árið en haustið 1973 urðu þó nokkrar breytingar á henni þegar Jónas hljómborðsleikari hætti en Jón Ingi bassaleikari færði sig þá yfir á hljómborðið, Friðjón Jóhannsson kom þá inn í sveitina sem bassaleikari. Þá hafði Gunnlaugur trommari einnig hætt og fór Bjarni söngvari yfir á trommurnar en söng þó áfram, jafnframt þessu bættist við annar gítarleikari í sveitina, Þorvarður B. Einarsson.

Næstu breytingar á skipan Völundar urðu þær að Friðjón hætti og tók Jón Ingi þá aftur við bassanum, bróðir Jóns Inga, Helgi Arngrímsson kom þá inn sem gítarleikari fyrir Þorvarð en hann hætti í sveitinni. Aðrir meðlimir voru þá Bjarni og Friðrik og var sveitin kvartett um veturinn 1974-75. Um vorið 1975 bættist hljómborðsleikarinn Eyþór Hannesson í hópinn og lék með sveitinni fram að áramótum 1975-76, og vorið 1976 kom Stefán Snædal Bragason inn sem hljómborðsleikari.

Völundur á leið til Færeyja

Þannig var sveitin skipuð þegar „stóra Völundarmálið“ kom upp sumarið 1976 en það var í formi blaðaskrifa og ritdeilna, mest í Dagblaðinu. Þessi skrif reyndust síðan vera eins konar hrepparígur sem rataði á síður blaðsins þar sem Fáskrúðsfirðingar og Egilsstaðabúar skiptust á hörðum skotum um hljómsveitir sínar, Heródes og Völund þar sem ágæti sveitanna og gallar, auk lagaprógramms var tilefni skrifanna. Menn fóru þar langt yfir strikið í málflutningi sínum, og blönduðust önnur byggðalög og hljómsveitir inn í deilurnar, s.s. Reyðarfjörður og Amon Ra og Jarlar, auk fleiri fjölmiðla s.s. Morgunblaðið og Ríkisútvarpið. Málið varð reyndar sveitinni líklega betri auglýsing en öll önnur umræða og í lok sumars vissu flestir deili á sveitinni.

Sveitin hafði mestmegnis leikið í heimabyggð sinni á Héraði og í landsfjórðungnum en hafði þó stöku sinnum leikið utan svæðisins eins og t.d. um verslunarmannahelgina 1975 þegar hún lék á dansleikjum í Skúlagarði í Kelduhverfi. Sumarið 1976 fóru þeir Völundar þó einnig til Færeyja og léku þar á nokkrum dansleikjum. Fyrr það sama ár hafði sveitin farið í hljóðver á Akureyri og tekið þar upp tvö lög sem síðan komu út á safnplötunni Eitt með öðru, sem gefin var út af Tónaútgáfunni á Akureyri um haustið. Annað laganna kom löngu síðar einnig út á safnplötunni Í laufskjóli greina (1997).

Haustið 1976 hætti Helgi gítarleikari í Völundi og um veturinn fór minna fyrir sveitinni en oft áður, sveitin tók þó þorrablótsvertíðina eystra í ársbyrjun 1977 en að henni lokinni hætti hún um tíma og svo virtist sem hún hefði þá lagt upp laupana. Svo var þó ekki og hún birtist aftur í sumarbyrjun nokkuð breytt, Bjarni söngvari og trommari var þá hættur en í hans stað kom Arnþór Magnússon á trommurnar sem hafði áður verið rótari sveitarinnar, Ásmundur Þór Kristinsson kom einnig inn og leysti söngvarahlutverkið af hendi. Völundur starfaði því áfram um sumarið 1977 en hætti síðan alveg um haustið, þá hafði hún starfað í um fimm ár. Jón Ingi og Friðrik voru þá þeir einu sem höfðu verið meðlimir Völundar allan starfstímann.

Völundur kom saman aldamótaárið 2000 og lék þá eitthvað opinberlega, og sjálfsagt hefur þessi sveit, kennd við stóra Völundarmálið, birst oftar á dansleikjum á austanverðu landinu frá því að hún hætti haustið 1977.