Miðaldamenn (1970-2014)

Miðaldamenn

Hljómsveitin Miðaldamenn er ásamt Gautum þekktasta hljómsveit Siglfirðinga en hún hefur starfað með hléum frá 1970. Fjöldi manna og kvenna hafa farið í gegnum þessa sveit og hún hefur sent frá sér fáeinar plötur.

Miðaldamenn voru stofnaðir haustið 1970 og voru upphaflegir meðlimir hennar Bjarki Árnason, Þórður Kristinsson, og Magnús Guðbrandsson en Sturlaugur Kristjánsson bættist fljótlega í hópinn, ekki liggur alveg ljóst fyrir hver hljóðfæraskipan sveitarinnar var í upphafi en Magnús mun þó hafa leikið á bassa. Á allra fyrstu vikunum mun sveitin hafa gengið undir nafninu Þórður og félagar eða jafnvel Bjarki og félagar.

Sveitin var stofnuð til að leika á hjónadansleikjum á Siglufirði og nágrenni en fljótlega fóru þeir félagar að leika á samkomum eins og árshátíðum, síðar komu almennir dansleikir til sögunnar – fyrst í heimabyggð en síðan einnig í öðrum landshlutum.

Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um meðlimaskipan Miðaldamanna og mannabreytingar í henni en þó er ljóst að breytingar urðu allmiklar í gegnum tíðina. T.d. munu Ingi Eiríksson og Árni Bjarkason (sonur Bjarka) hafa leikið með sveitinni fljótlega en sá síðarnefndi hafði þá tekið við af Þórði, þá lék Geirharður Valtýsson (Gerhard Schmidt) með Miðaldamönnum um tíma veturinn 1974 til 75 að minnsta kosti. Birgir Ingimarsson trymbill kom inn í sveitina 1976 og Leó Ólason hljómborðsleikari 1977 en síðarnefnda árið skipuðu sveitina auk þeirra tveggja Sturlaugur Kristjánsson bassaleikari og Magnús gítarleikari (sá eini sem hafði verið með frá upphafi).

Snemma árs 1978 varð töluverð mikil endurnýjun á lagaprógrammi sveitarinnar og um leið á sveitinni, Magnús færði sig yfir á bassa og Guðmundur Ragnarsson gítarleikari tók við af Sturlaugi, einnig bættist í hópinn Selma Hauksdóttir söngkona sem var reyndar þá aðeins fimmtán ára gömul. Þessi útgáfa sveitarinnar hefur leikið í fáein skipti saman í seinni tíð þegar brottfluttir Siglfirðingar hafa haldið dansleiki utan átthaganna. Sveitin starfaði þannig skipuð ekki lengi, Selma, Magnús og Guðmundur hættu um haustið og þeir Leó, Birgir og Sturlaugur (sem kom aftur inn) kölluðu sig um tíma Sigló tríóð en tóku svo aftur upp fyrra nafnið enda var það öllu þekktara nafn.

Fleiri breytingar urðu á skipan Miðaldamanna næstu árin, árið 1980 hélt sveitin upp á tíu ára afmæli sitt og þá voru í henni Birgir og Leó en Sturlaugur Kristjánsson var þá bassaleikari, einnig höfðu söngkonurnar Erla Guðfinnsdóttir og Kristín Bjarnadóttir gengið til liðs við sveitina og störfuðu með henni um sumarið.

Miðaldamenn frá Siglufirði

Leó hafði sent lag í Söngvakeppni Sjónvarpsins sem var ný af nálinni og var haldin með pomp og prakt í upphafi árs 1981, lagið sem hét Eftir ballið komst þar í úrslit úr hópi um fimm hundruð laga, og var á lokakvöldinu sungið af Ragnhildi Gísladóttur. Lagið hafnaði í áttunda sæti  keppninnar en í kjölfarið ákváðu Leó og félagar hans í Miðaldamönnum að ráðast í útgáfu smáskífu þar sem lagið yrði aðal smellurinn. Ætlunin var að Ragnhildur myndi syngja lagið eins og í keppninni en þegar hún hafði ekki áhuga á því leituðu þeir til söngkonunnar Erlu Stefándóttur sem hafði gert garðinn frægan fímmtán árum fyrr með laginu Lóan er komin. Hún var til í verkefnið og lagið naut þó nokkurra vinsælda um sumarið, þrjú önnur lög voru á plötunni og fengu þau ágætis viðtökur einkum lögin Plötusnúðurinn (sem Snorri Guðvarðarson söng) og Galdralagið, sem reyndar var samið af Baldri Brjánssyni. Fjórða lag plötunnar var lagið More sem Elly Vilhjálms hafði sungið undir titlinum Meir, það lag var ósungið rétt eins og Galdralagið. Svo virðist sem Miðaldamenn hafi um þetta leyti verið tríó Leós, Sturlaugs og Birgis.

Miðaldamenn störfuðu áfram næstu árin en ekki er allt á hreinu varðandi skipan sveitarinnar, 1983 yfirgaf Birgir sveitina en bræðurnir Þórhallur Benediktsson gítarleikari og Dúi Benediktsson trommuleikari gengu þá til liðs við sveitina en Leó hætti um svipað leyti.

Upplýsingar eru svo af skornum skammti um sveitina næstu árin, Sturlaugur var einn meðlima hennar 1988 en það ár voru líklega aðrir Miðaldamenn þeir Helgi Ástvaldsson trommuleikari og Guðbrandur Gústafsson [söngvari og gítarleikari?]. Á þessum árum kom Hermann Jónsson harmonikkuleikari stundum fram með sveitinni en einnig Hallbjörn Hjartarsson kántrísöngvari stöku sinnum.

Ólafsfirðingarnir Magnús G. Ólafsson gítarleikari og Guðbrandur Óskarsson gítar- og saxófónleikari komu við sögu Miðaldamanna um tíma en þeir hættu árið 1990 og kom Stefán Friðriksson söngvari og gítarleikari inn í hana í þeirra stað, auk hans voru þá í sveitinni Sturlaugur sem nú lék á hljómborð og sá um söng, Þorsteinn Sveinsson trompetleikari og söngvari og Örn Árnason trommuleikari.

Miðaldamenn 1990

Árið 1992 áttu Miðaldamenn lag á safnplötunni Lagasafnið 1: Frumafl en þá skipuðu sveitina Þorsteinn, Magnús og Sturlaugur, einnig kom Birgir J. Birgisson hljómborðsleikari þar við sögu en var líklega ekki hluti sveitarinnar. Sveitin mun hafa starfað nokkuð samfleytt allan tíunda áratuginn, þeir félagar sömdu og fluttu t.a.m. lagið Síldarævintýrið fyrir samnefnda hátíð 1993 og kom fram á þeirri árvissu hátíð margoft, þá lék sveitin einnig erlendis – á þorrablóti í Lúxemborg 1996. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hverjir skipuðu sveitina á tíunda áratugnum og fyrsta áratug nýrrar aldar en Sævar Sverrisson mun þó hafa verið söngvari hennar um tíma, einnig er nokkuð víst að Sturlaugur var meðlimur hennar áfram.

Árið 2005 sendu Miðaldamenn frá sér fjögurra laga plötuna Á síld en á þeirri plötu var að finna síldaævintýristengd lög, þ.á.m. áðurnefnt lag frá hátíðinni 1993. Á þeirri plötu koma við sögu Kristján Dúi Benediktsson söngvari og trommuleikari, Þorsteinn, Sturlaugur, Magnús og áðurnefndur Birgir J. Birgisson.

Miðaldamenn gáfu síðan út sextán laga plötu árið 2007 samnefnda sveitinni en hún var helguð Bjarka Árnasyni sem hafði verið einn stofnenda sveitarinnar en hafði látist nokkrum árum fyrr, textarnir voru allir eftir Bjarka auk þess sem hann samdi einnig fjölda laga á plötunni. Hljóðfæraleik Bjarka ar einnig að finna á plötunni, hafði þá verið unninn upp úr gömlum upptökum, platan fór ekki hátt og hlaut slaka dóma í Lesbók Morgunblaðsins.

Sveitin starfaði áfram nokkuð samfleytt fram til ársins 2014 án þess þó að vekja neina sérstaka athygli utan Siglufjarðar og nágrennis en svo virðist sem þá hafi hún lagst í dvala, ekki er þó ljóst hvort hún sé endanlega hætt, hluti sveitarinnar starfaði um tíma í hljómsveitinni Vönum mönnum.

Lagið Eftir ballið hélt nafni Miðaldamanna lengi á lofti en það heyrist nú æ sjaldnar spilað í útvarpi, þrátt fyrir að bæði Þuríður Sigurðardóttir og Ruth Reginalds hafi gætt það nýju lífi í sínum meðförum.

Efni á plötum