Gloría (1989-97)

Gloría

Húsvíska hljómsveitin Gloría starfaði um nokkurra ára skeið og fór mikinn á ballmarkaðnum á heimaslóðum, sveitin lék mikið á þorrablótum en einnig mikið á almennum dansleikjum. Gloría sendi frá sér eina plötu.

Hljómsveitin var stofnuð haustið 1989 og voru stofnmeðlimir hennar Víðir Pétursson gítarleikari, Hrannar Pétursson bassaleikari og söngvari, Þráinn M. Ingólfsson gítarleikari og Sigurpáll Ísfjörð Aðalsteinsson hljómborðsleikari. Fljótlega á nýju ári bættust við þeir Kristján St. Halldórsson gítarleikari og söngvari og Sigurjón Sigurðsson trommuleikari en væntanlega hefur sá síðarnefndi leyst annan slíkan af hólmi.

Sveitin spilaði strax mikið á dansleikjum fyrir norðan en lítið er í raun af sveitinni að segja fyrr en sumarið 1993 þegar þeir félagar áttu tvö lög á safnplötunni Landvættarokk, Kristján samdi þau bæði. Á þeim tíma hafði Hrannar bassaleikari hætt í sveitinni en Víðir fært sig af gítar yfir á bassann.

Gloría 1995

Þar með voru meðlimir Gloríu búnir að fá smjörþefinn af hljóðversvinnu og næsta skref var að hljóðrita breiðskífu sem síðan kom út árið 1995 undir titlinum Jæja góðir gestir, sveitin fékk til þess styrk frá Húsavíkurbæ og fjölmörgum styrktaraðilum í bænum en að öðru leyti stóðu þeir sjálfir straum af kostnaði útgáfu plötunnar sem þeir gáfu jafnframt út sjálfir. Það var Kristján gítarleikari sem samdi megnið af tónlistinni sem öll var frumasmin. Í millitíðinni hafði Örn Sigurðsson tenórsaxófónleikari gengið til liðs við sveitina en einnig hafði Kristinn Svavarsson saxófónleikari leikið með Gloríu um tíma meðan hann bjó og starfaði í bænum um tíma. Um svipað leyti og platan kom út kom sveitin landsmönnum fyrir sjónir í sjónvarpsþættinum Þeytingi sem sýndur var á Ríkissjónvarpinu.

Gloría starfaði um tíma eftir útgáfu plötunnar en hætti störfum eftir þorrablótsvertíðina í upphafi árs 1997. Sveitin átti þó eftir að koma við sögu á plötu Aðalstein Ísfjörð (föður Sigurpáls hljómborðsleikara) sem kom út árið 2000 en ekki liggur fyrir hvort um var að ræða gamlar upptökur eða nýjar.

Efni á plötum