Fíladelfíukórinn í Reykjavík (1950-98)

Fíladelfíukórinn í Reykjavík 1973

Fíladelfíukórinn í Reykjavík starfaði innan Fíladelfíusafnaðar Hvítasunnukirkjunnar á höfuðborgarsvæðinu en söfnuðurinn hefur starfað síðan 1936. Kórinn sendi frá sér nokkrar plötur sem innihélt tónlist með kristilegum boðskap.

Ekki liggur alveg fyrir nákvæmlega hvenær Fíladelfíukórinn var stofnaður eða hversu lengi hann starfaði en óformlegar æfingar munu hafa hafist árið 1950 þegar Árni Arinbjarnarson hóf að æfa kór þar en hann var þá aðeins sextán ára gamall. Kórinn varð síðan formlega til árið 1952 og söng á samkomum Fíladelfíu næstu áratugina undir stjórn Árna en hann var þar við stjórnvölinn nánast allt þar til Óskar Einarsson tók við en þá var kórinn lagður niður og stofnaður nýr kór undir nafninu Gospelkór Fíladelfíu. Óskar hafði reyndar áður leyst Árna af um stundarsakir en annars stjórnaði Árni kórnum í nánast fimmtíu ár, líklega til ársins 1998 eða þar um bil.

Fíladelfíukórinn í Reykjavík sendi frá sér nokkrar plötur og kom sú fyrsta úr árið 1969, um var að ræða fjögurra laga smáskífu sem Hörpustrengir, útgáfufélag Fíladelfíu gaf út. Kórinn sem þá var skipaður um þrjátíu manns söng þar við undirleik Daníels Jónassonar en Svavar Guðmundsson söng einsöng á plötunni, platan hlaut ágæta dóma í Morgunblaðinu.

Kórstarfið var nokkuð öflugt á áttunda áratugnum og fór kórinn að minnsta kosti einu sinni út fyrir landsteinana í söngferðalag, það var sumarið 1974 og söng hann þá í Noregi, Danmörku og Svíþjóð. Það sama haust kom út önnur plata með kórnum, það að breiðskífa að þessu sinni og bar hún titilinn Áfram Kristsmenn krossmenn og var hún tólf laga. Margir hinna sömu sem komið höfðu að smáskífunni fimm árum fyrr komu að þessari plötu einnig og gaf Hörpurstrengir hana út eins og fyrri plötuna.

Árið 1975 var orgel sett upp í Fíladelfíukirkjunni og batnaði þá öll aðstaða til kórsöngs, sem varð um leið heilmikið innspýting í kórastarfið. Meðferðardeild Fíladelfíu, Samhjálp hafði verið stofnuð 1973 og á þessum árum stóð sá angi kirkjunnar í stórræðum við byggingu meðferðarheimilis að Hlaðgerðarkoti í Mosfellssveit, það verkefni var fjármagnað með ýmsum hætti og m.a. kom þar við sögu útgáfa platna sem kórinn kom heldur betur við sögu á.

Haustið 1978 kom út plata sem hét einfaldlega Samhjálp en hún hafði verið hljóðrituð um vorið, hún hafði að geyma tólf erlend lög sungin af kórnum, við trúarlega texta Óla Ágústssonar og rann allur ágóði af sölu hennar til Hlaðgerðarkots. Landinn tók vel við sér þegar kom að því að styrkja verkefnið því platan seldist í yfir tíu þúsund eintökum.

Fljótlega eftir þetta var farið að huga að útgáfu annarrar slíkrar plötu og hún kom út fyrir jólin 1989, og bar heitið Fylg þú mér og seldist sömuleiðis afar vel enda rann allur ágóði plötunnar til styrktar fyrrgreindu verkefni, sami háttur var hafður við gerð þeirrar plötu – erlend lög við íslenska texta sem flestir voru eftir Óla Ágústsson. Samhjálp sendi svo frá sér þriðju plötuna (Kristur konungur minn) haustið 1982 en kórinn kom ekki að gerð þeirrar plötu.

Fíladelfíukórinn í Reykjavík sendi ekki frá sér fleiri plötu en söngur hans var hins vegar mjög áberandi á tveimur safnplötum sem komu út á vegum Samhjálpar og Fíladelfíu, Allt megnar þú (1992) og Spurðu mig: gospeltónlist frá Fíladelfíu (1995). Söng kórsins má einnig heyra og sjá á myndbandsspólum sem Fíladelfia sendi frá sér árið 1989 en þær báru heitið Lofsöngvar I og II.

Kórinn starfaði sem fyrr segir til ársins 1998 að minnsta kosti undir stjórn Árna en Óskar hafði þá komið smám saman inn í starfið og þegar sá fyrrnefndi hætti var nýr kór, Gospelkór Fíladelfíu stofnaður en fyrri kórinn hafði þá einnig stundum sungið þess konar tónlist á samkomum safnaðarins.

Efni á plötum