Foss (1983-84)

Foss

Hljómsveitin Foss birtist haustið 1983 en hún hafði þá verið stofnuð upp úr tveimur öðrum sveitum, það voru þeir Ágúst Ragnarsson söngvari, hljómborðs- og gítarleikari og Jón Ólafsson bassaleikari sem komu úr Start en Ólafur J. Kolbeinsson trommuleikari og Axel Einarsson gítarleikari úr hljómsveitinni Swiss.

Sveitin fór hratt af stað og fáeinum vikum eftur stofnun hennar höfðu fjórmenningarnir tekið upp fjögur lög með Tony Cook við stjórnvölinn, tvö eftir Axel og tvö eftir Ágúst, og í kjölfarið virtist stutt í plötuútgáfu enda gáfu þeir félagar út í blaðaviðtali að platan kæmi út í byrjun nóvember. Sveitin fór af stað í spilamennsku en svo virðist sem eitthvað hafi komið í veg fyrir plötuútgáfuna, alltént kom hún aldrei út og um það leyti hætti Jón bassaleikari í sveitinni.

Ekkert heyrðist til sveitarinnar fyrr en í febrúar á nýju ári (1984) þegar hún lék í nokkur skipti í Klúbbnum en ekki liggur fyrir hverjir skipuðu sveitina þá, Einar Bragi Bragason saxófónleikari mun hafa leikið með henni um skamman tíma en óljóst er með aðra hljómsveitarmeðlimi á þeim tíma.

Svo virðist sem Foss hafði lagt upp laupana áður en veturinn var úti en eitt lag með sveitinni kom út á safnplötunni SATT 1 þá um vorið, þar hefur væntanlega verið um að ræða eitt hinna fjögurra laga sem tekin voru upp haustið á undan.