Afmælisbörn 6. október 2021

Lárus Ingi Magnússon

Þrjú afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar að þessu sinni:

Lárus Ingi Magnússon söngvari er fimmtíu og þriggja ára gamall á þessum degi. Lárus kemur upphaflega frá Hvolsvelli og söng þar með sveitaballahljómsveitum á borð við Durex, Frk. Júlíu og Nonna og mönnunum en hlaut sína frægð þegar hann sigraði fyrstu Söngkeppni framhaldsskólanna vorið 1990. Lárus hefur lítið fengist við söng hin seinni ár.

Guðni Þ. Guðmundsson organisti hefði einnig átt afmæli þennan dag en hann lést árið 2000. Guðni var fæddur í Vestmannaeyjum árið 1948 en á fastalandinu nam hann orgelleik og tónmenntir áður en hann fór til framhaldsnáms í Danmörku, þar lærði hann einnig á trompet. Þegar heim var komið fékkst Guðni við tónmenntakennslu auk annars en aðal störf hans voru orgnistastörf, stjórn bjöllusveitar og kórstjórnun við Langholts- og Bústaðakirkju svo dæmi séu tekin. Karlakórinn Stefnir og sönghópurinn Einn og átta voru einnig meðal þeirra sem nutu krafta hans, sem og Félag íslenskra orgelleikara þar sem hann gegndi formennsku um tíma.

Ennfremur átti Stefán Íslandi óperusöngvari þennan afmælisdag. Stefán (Guðmundsson) (1907-94) fæddist í Skagafirði og ólst upp þar, hann fór til söngnáms til Reykjavíkur og hóf þar að syngja með Karlakór Reykjavíkur, oft einsöng en hann var þá þegar orðinn nokkuð þekktur fyrir túlkun sína á Ökuljóði (Áfram veginn) sem varð hans einkennislag alla tíð. Margir lögðu lóð á vogarskálarnar til að koma Stefáni til söngnáms á Ítalíu 1930 og að námi loknu starfaði hann víðs vegar um Evrópu, m.a. á Ítalíu, Þýskalandi og Danmörku en einnig hér heima. Margar plötur komu út með Stefáni og hefur mikið af efni með honum verið endurútgefið síðustu áratugina.

Vissir þú að hljómsveitin Vinir Dóra var stofnuð til að hita upp fyrir John Mayall sem lék á tónleikum hér á landi?