Skriðjöklar (1983-)

Skriðjöklar

Akureyska hljómsveitin Skriðjöklar nutu töluverðra vinsælda á síðari hluta níunda áratugar síðustu aldar fyrir lög eins og Tengja, Hesturinn, Steini, Mikki refur og Aukakílóin sem öll mætti flokka sem eins konar gleðipopp með grínívafi, sveitin var einnig þekkt fyrir að vera skemmtileg á sviði og almennt sprell þegar kom að viðtölum, myndbandagerð, myndatökum o.þ.h. Segja má að þar hafi verið á ferð fyrsta alvöru grínbandið en þeir tóku grínið og skemmtilegheitin miklu lengra en t.d. Stuðmenn og Haukar sem þóttu annálaðar gleðisveitir, kæruleysislegur galgopaháttur í bland við mikið sukk og fyllerí gekk vel í landann og sveitin var meðal vinsælustu hljómsveita landsins um tíma.

Skriðjöklar áttu sér aðdraganda en hún var stofnuð sumarið 1983 upp úr tveimur hljómsveitum sem þá voru starfandi á Akureyri, það voru annars vegar Hálfsjö (½7) og Straumar – fyrrnefnda sveitin innihélt Þráin Brjánsson trommuleikara, Jóhann Ingvason hljómborðsleikara, Kolbein Gíslason gítarleikara og Jón Hauk Brynjólfsson bassaleikara en sú síðarnefnda, tríóið Straumar hafði að geyma Ragnar Kristinn Gunnarsson trommuleikara og söngvara, Jakob R. Jónsson gítarleikara og Ásmund Magnússon sem að öllum líkindum hefur verið bassaleikari. Ástæðan fyrir stofnun sveitarinnar var að framundan, um verslunarmannahelgina var útihátíðin Atlavík ’83 en þangað lá straumurinn frá Norður- og Austurlandi – hljómsveitakeppni var þar meðal dagskrárliða og þátttökusveitir fengju frítt inn á svæðið. Þannig þótti kjörið að stofna hljómsveit til að komast frítt inn á hátíðina og voru slíkar sveitir víða stofnaðar – og margar æði fjölmennar og illa spilandi. Ekki liggur ljóst fyrir hversu margir Skriðjöklarnir voru í Atlavík en ein heimild segir að sveitina hafi skipað ellefu manns og meðal aukamanna voru þeir Bjarni Bjarnason og Logi Már Einarsson (síðar alþingismaður) sem voru titlaðir bakraddasöngvarar og dansarar, ekki er ljóst hvert hlutverk allra meðlima sveitarinnar var. Þess má geta að Skriðjöklar og kvennasveitin Svörtu ekkjurnar (sem einnig var meðal þátttökusveita) leigðu rútu fyrir Atlavíkur-hátíðina og fylltu hana svo með fólki sem greiddi fargjald, og komu því út á sléttu.

Skriðjöklar á sviði – Logi Már lengst til hægri

Skriðjöklar lentu í þriðja sæti keppninnar í Atlavík á eftir Aþenu og Dúkkulísunum en viðurkenndu síðar að hafa svindlað í keppninni. Þannig var atkvæðagreiðslu háttað að kosningaseðlum var dreift meðal hátíðargesta og þeim síðan safnað saman að kosningu lokinni, einn þeirra Skriðjökla komst yfir gæslubol baksviðs og safnaði síðan atkvæðum meðal gesta og hagræddi þannig úrslitunum þeim í vil. Önnur útgáfa sögunnar er á þá leið að þeir hefðu hnuplað óútfylltum atkvæðaseðlum og að upp hefði komist um málið, ólíklegt er þó að þeir hefðu lent í þriðja sæti keppninnar ef það er rétt. Grínið var reyndar heldur ekki langt undan því sveitarmeðlimir munu hafa fært Stuðmanninum Valgeiri Guðjónssyni dómnefndarmanni í keppninni kampavínsflösku og var hann ekki lengi að bendla þá gjöf við mútur – sem það var auðvitað.

Eftir Atlavíkur-hátíðina spurðist ekkert til þeirra Skriðjökla næstu mánuðina enda hafði aldrei verið ætlunin að tjalda til nema einnar útihátíðar. Svo fór þó að sveitin vaknaði til lífsins um mitt sumar 1984 þegar verslunarmannahelgin nálgaðist aftur enda önnur Atlavíkur-hátíð framundan, að þessu sinni hitaði sveitin upp í göngugötunni í miðbæ Akureyrar rétt fyrir helgina og vakti þar töluverða athygli. Skriðjöklarnir voru sex að þessu sinni í Atlavík; Kolbeinn, Jón Haukur, Ragnar, Jakob, Þráinn og Bjarni,  allir vel í glasi (reyndar eins og sumarið á undan) en náðu ekki að heilla hátíðargesti þrátt fyrir að „múna“ á áhorfendur íklæddir gæruskinnum, ekki dugði heldur að múta Valgeiri dómnefndarmanni með hreindýrshorni sem þeir höfðu stolið. Sveitin lenti því í síðasta keppninnar.

Þarna var Skriðjöklum ljóst að þeir voru komnir til að vera og fljótlega eftir verslunarmannahelgina bættust aftur í hópinn þeir Jóhann hljómborðsleikari og Logi Már sem að þessu sinni var titlaður banjóleikari (sem hann var þó líklega ekki). Þeir félagar voru ekki alveg búnir að ákveða hvað þeir ætluðu að kalla sig og ýmsar hugmyndir voru uppi á teikniborðinu s.s. Flugmenn, Ljósin í innbænum og Sálmar frá Akureyri en Skriðjöklanafnið varð ofan á. sveitin fór fljótlega á fullt í almennri ballspilamennsku en léku þó mest á Akureyri og nærsveitum næsta árið við almenna gleði og sukk liðsmanna sveitarinnar.

Skriðjöklar

Atlavík ´85 var framundan verslunarmannahelgina 1985 og sveitin keppti í þriðja sinn, orðin nokkuð þekkt á norðanverðu landinu og að þessu sinni voru menn hófsamari í drykkjunni – að minnsta kosti meðan þeir stóðu á sviðinu, þá greina heimildir ekki frá neinum mútum eða svindli frá hátíðinni að þessu sinni. Skriðjöklarnir fluttu tvö lög í keppninni, slagara um Steina (Aðalstein Guðmundsson bæjarstarfsmann á Akureyri) og lagið Þrjár vikur á Spáni sem ku hafa verið blúskennt lag með blautlegum texta. Nú skipti engum togum að sveitin sigraði keppnina og skaut þar sveitum eins og Súellen og Special treatment (síðar Greifunum) aftur fyrir sig. Þar með höfðu þeir náð takmarki sínu en það þýddi líka að þeir máttu ekki taka aftur þátt í keppninni að ári og þá þyrftu þeir að greiða aðgangseyri, það kom þó ekki að sök því engin Atlavíkur-hátíð var haldið 1986.

Fljótlega eftir sigurinn í Atlavík fóru hlutirnir að gera hraðar og síðsumars höfðu þeir félagar gert myndband við lagið Steini sem sýnt var í tónlistarþættinum Skonrokki um haustið 1985, þá hafði sveitin farið áður í hljóðverið Stúdíó Bimbó á Akureyri og mun Pálmi Guðmundsson eigandi og hæstráðandi þar hafa látið þau fleygu orð falla um Skriðjökla að þeir væru hálfskrýtnir – reyktu t.d. allir úr sömu pípunni, átti hann að hafa sagt um þá félaga. Segja má að Skriðjöklar hafi svo slegið í gegn á landsvísu á einu föstudagskvöldi því lagið vakti mikla athygli í Skonrokksþættinum og varð vinsælt í kjölfarið. Sveitin kom suður yfir heiðar í kjölfarið á lék á dansleikjum í Hollywood og Klúbbnum og um svipað leyti fór hún í Stúdíó Mjöt og hljóðritaði sex lög með Tryggva Þór Herbertssyni upptökumanni en þá hafði Eggert Benjamínsson tekið við trommuslættinum af Þráni. Þeir félagar léku reyndar ekki mikið um haustið enda voru sumir hljómsveitarmeðlimir í námi og vant við látnir og gátu því lítt fylgt eftir smáskífunni Var mikið sungið á þínu heimili? sem kom út um haustið og hafði að geyma fjögur af þeim sex lögum sem hljóðrituð höfðu verið í Mjöt en hljóðverið gaf plötuna út. Umslag plötunnar var nýstárlegt en það var glær áprentaður plastpoki með handfangi og var platan sjálf einnig glær. Aðallag plötunnar var fyrrnefnt Steini sem flestir könnuðust nú orðið við úr sjónvarpinu og það komst inn á Vinsældalista Rásar 2 sem þá var þá kominn til sögunnar, með dyggri aðstoð hljómsveitarinnar og vina hennar sem hringdu óspart í útvarpsstöðina til að gefa laginu meira vægi í vinsældakosningunni. Sveitin tók smá spilatörn um jólin og lék þá m.a. á Hótel Borg ásamt Grafík og tók Helgi Björnsson söngvari þeirrar sveitar lagið með Jöklunum.

Skriðjöklar bregða á leik

Skriðjöklar spiluðu lítið framan af ári 1986 en síðla vetrar kom sveitin fram í sjónvarpsþættinum Á líðandi stundu þar sem þeir léku lagið Hesturinn sem hljómsveitin Geimsteinn með Rúnar Júlíusson í broddi fylkingar hafði gert skil á plötunni Geimferð árið 1978. Það lag kom svo út á tveggja laga plötu með Skriðjöklum um vorið, sem hlaut titilinn Manstu eftir Berlín bollan‘ðín, hitt lagið hét Tengja og var hið fyrsta í röð nokkurra laga eftir Bjarna Hafþór Helgason sem sveitin átti eftir að gefa út en textinn var eftir Arnar Björnsson sem um svipað leyti var að hefja feril sinn sem íþróttafréttamaður. Þeir félagar gáfu plötuna út sjálfir undir útgáfumerkinu Jiðskröklar og var útgáfunúmer hennar 0000001 svo menn stefndu greinilega hátt, hún hafði aukreitis þá sérstöðu að hana mátti ekki selja – einungis gefa, og kláraðist því upplagið (1500 eintök) á fáeinum dögum, platan fékk ágæta dóma í DV og Morgunblaðinu.

Lögin nutu bæði mikilla vinsælda um sumarið, einkum Hesturinn en nokkurn skugga bar á vinsældirnar að upp komst um skipulagt svindl í kringum kjörið á vinsældalista Rásar 2, sveitin lá þar sjálf undir grun og gripu forsvarsmenn listans til þess ráðs að birta ekki vinsældalistann þá vikuna en þeir höfðu fengið vísbendingu um málið fyrirfram, bæði lögin höfðu þar skorað óvenju hátt. Málið vakti mikla athygli, heilmikil blaðaskrif urðu um það og sýndist sitt hverjum, Skriðjöklar sóru af sér allt svindl og höfðu greinilega fólkið með sér því í næstu viku á eftir þegar nýr listi var kynntur (eftir breytingar á reglum hans og nýja aðferðafræði) var Hesturinn (en þá var nýbúið að frumsýna myndband við lagið) í þriðja sæti listans og Tengja í því sjöunda, vikuna á eftir hafði Hesturinn hækkað upp í annað sæti og var síðar fjórar vikur á toppnum og á topp 3 í átta vikur – Tengja náði hæst fimmta sætinu. Svindlmálið var nokkuð í umræðunni þetta sumar og um tíma hafði jafnvel staðið til að leggja vinsældalistann niður sem varð þá ekki, því verður þó ekki neitað að „svindlsaga“ hljómsveitarinnar var ekki til að hjálpa til í þessu máli.

Skriðjöklar spiluðu mikið þetta sumar enda var hún þá meðal vinsælustu hljómsveita landsins og sveitaballasumarið í algleymingi, sveitin spilaði á fjölda dansleikja, á stórum tónleikum í Laugardalshöllinni, á 200 ára afmælishátíð Eskifjarðar, hituðu upp fyrir Bonnie Tyler á tónleikum í Laugardalshöllinni og léku á útihátíðinni Gauki á Stöng í Þjórsárdalnum um verslunarmannahelgina. Þá var sveitin fengin til að koma fram á fyrsta útsendingardegi Bylgjunnar FM 98,9 sem tók til starfa í lok ágúst og var henni tekið þar með kostum og kynjum – e.t.v. aðallega til að stríða samkeppnisaðilanum Rás 2. Galgopahátturinn var auðvitað enn við lýði hjá sveitarmeðlimum en sumum þóttu þeir fara nokkuð yfir strikið þegar þeir komu fram á tónleikum með Bubba Morthens á Akureyri sem þá var í tónleikaherferð til styrktar Kvennaathvarfinu og sungu þeir þar jólalagið Nú er Gunna á nýju skónum og höfðu breytt textanum: „pabbi er enn í eldhúsinu eitthvað að fást við mat / mamma er enn í athvarfinu gul og rauð og blá“.

Skriðjöklar í París 1991

Innkoman varð heilmikil þetta sumar enda lék sveitin víðast hvar fyrir fullu húsi. Tvær fyrstu plöturnar höfðu verið hljóðritaðar í Mjöt og sveitin sá fram á að mun hentugra væri að reka eigið hljóðver svo þeir félagar tóku á leigu húsnæðið þar sem Stúdíó Bimbó hafði áður verið á Akureyri og keyptu græjur til að taka plötur sínar upp sjálfir. Þá höfðu þeir verið með frambyggðan Rússajeppa sem hljómsveitarbíl sem gekk undir nafninu Arne Treholt (í höfuðið á Norðmanni sem komst upp um að hefði njósnað fyrir Sovétmenn um svipað leyti) en þegar sá gaf upp öndina (þ.e. bíllinn) keypti sveitin sér öfluga Benz-rútu sem samstundist fékk nafnið Kurt Waldheim (sem hafði verið aðalritari Sameinuðu þjóðanna og var um þetta leyti orðinn forseti Austurríkis). Þannig voru Skriðjöklar orðnir að heljarinnar batteríi og heldur betur komnir á kortið.

Eftir áramótin 1986-87 létu Skriðjöklarnir lítið fara fyrir sér í nokkra mánuði en þeir unnu þá hörðum höndum að því að standsetja hljóðverið. Um vorið birtust fréttir þess efnis í fjölmiðlum að sveitin myndi taka upp tvö lög eftir Bjarna Hafþór í hljóðveri Samvers (sem hafði gert myndböndin fyrir sveitina) sem kæmu út á plötu tengdri Landsmóti UMFÍ sem haldið yrði á Húsavík um sumarið, lögin hétu Á landsmót og Mamma tekur slátur en fyrra lagið er fyrsta og eina landsmótslag sem gert hefur verið fyrir UMFÍ. Platan kom svo út um sumarið í 2000 eintökum og var seld í gegnum ungmennafélögin en fór ekki í almenna sölu. Á landsmót komst ofarlega á vinsældalista Rásar 2 og einnig hjá Bylgjunni sem byrjuð var þá með sambærilegan lista.

Hljóðver þeirra Skriðjökla, Stúdíó Skriðjöklar var tekið í notkun um sumarið og þar tók Tryggvi Þór Herbertsson upp tíu laga plötu með sveitinni, hún kom einnig út um sumarið og hafði að mestu að geyma frumsamið efni en auk þess eitt þjóðlag og svo einn hittara eftir Bjarna Hafþór, Hryssan mín blá sem varð aðalsmellur sumarsins hjá sveitinni en þó ekkert í samanburði við Hestinn og Tengja sumarið á undan. Platan, sem hafði hlotið titilinn Er Indriði mikið erlendis? vakti ekki mikla athygli og hlaut fremur slaka dóma í DV, hverju sem um er að kenna. Grínið var sem fyrr aldrei langt undan hjá þeim Skriðjöklum og þegar þeir héldu blaðamannafund til að kynna plötuna afhentu þeir sjálfum sér gullplötur fyrir hana fyrirfram því þeir voru með á hreinu að platan næði 5000 eintaka markinu sem gullplatan stóð fyrir, platan seldist þó aldrei nálægt því.

Skriðjöklar árið 1992

Sveitin spilaði ekki nándar nærri eins mikið sumarið 1987 og sumarið á undan en lék þó á útihátíð í Atlavík sem haldin var þar en slík hátíð hafði þá ekki verið haldin þar síðan 1985. Þá lék sveitin jafnframt ásamt fleiri hljómsveitum á stórum tónleikum sem haldnir voru í Tívolíinu í Hveragerði um haustið, og lék reyndar á Íslendingadansleik í Kaupmannahöfn litlu síðar. Að öðru leyti fór lítið fyrir Jöklunum um veturinn og þeir spiluðu nánast ekkert fyrr en vorið 1988, um það leyti kom út tveggja laga platan Þetta er svívirða við greiðendur afnotagjalda og enn var það Bjarni Hafþór sem útvegaði sveitinni smell en það var lagið Aukakílóin, sem naut nokkurra vinsælda um sumarið og hjó nærri toppsætinu á vinsældalista Rásar 2 en var nokkuð neðar á Bylgjunni – hitt lagið hét Elvis Presley just left the building og var eftir Loga Má en vakti ekki mikla athygli.

Allt frá því snemma um sumarið 1988 voru uppi sögusagnir og fréttaflutningur um að stór útihátíð yrði haldin að Melgerðismelum í Eyjafirði um verslunarmannahelgina og voru Skriðjöklar frá byrjun nefndir meðal skemmtikrafta á hátíðinni. Nokkur spenna var fyrir henni því spurst hafði út að stór erlend sveit myndi troða upp á hátíðinni, eftir að búið var að útiloka Michael Jackson, Bruce Springsteen og Huey Lewis & the news sló Morgunblaðið því upp að Toto myndi að öllum líkindum spila á hátíðinni. Þegar nær dró var það borið til baka en í stað hennar var nú komin Big Country, þegar verslunarmannahelgin gekk svo í garð þurftu hátíðargestir þó að láta sér nægja hið færeyska Viking band en nokkrar af þekktustu sveitum landsins héldu einnig uppi stuðinu, m.a. hljómsveitin Víxlar í vanskilum sem mynduð var úr meðlimum Skriðjökla, Sálarinnar hans Jóns míns og Stuðkompanísins en sveitin átti einn af vinsælustu slögurum sumarsins, Flagarabrag. Annars komust Skriðjöklar helst í fréttirnar þetta sumar fyrir auglýsingaplakat sem hneykslaði nokkuð en það prýddi nakin kona vel í holdum.

Sveitin lék töluvert um haustið 1988 en var mun rólegri í tíðinni framan af árinu 1989, eins og svo oft áður fór allt á fullt skrið aftur um vorið en að þessu sinni gáfu þeir félagar ekki út plötu. Þeir voru hins vegar með tvö lög á safnplötunni Bjartar nætur sem Skífan gaf út, annars vegar sumarsmellinn Mikki refur eftir Bjarna Hafþór – lag sem hann hafði sent í fyrstu undankeppni Eurovision keppninnar (1986) en ekki hlotið náð fyrir augum dómnefndarinnar, og hins vegar Heimsreisan eftir Karl Örvarsson en það lag vakti ekki mikla athygli. Þarna höfðu Skriðjöklarnir áttað sig á að eigin lagasmíðar voru ekki að gera sig og öll þeirra vinsælustu lög voru ýmist ábreiður eða eftir Bjarna Hafþór, sem titla mætti sem hirðskáld sveitarinnar. Annað lag eftir hann beið útgáfu, Ég elska þig öskrandi heitt, og átti að koma út um haustið en af þeirri útgáfu varð aldrei af einhverri ástæðu. Sumarið 1989 lék sveitin töluvert á dansleikjum, lengi stóð til að þeir myndu leika á útihátíð í Fnjóskadal um verslunarmannahelgina en sú hátíð var aldrei haldin, böll voru þess í stað haldin í félagsheimilinu Ídölum í staðinn þar sem sveitin lék fyrir dansi.

Skriðjöklar

Eftir sumarvertíðin fóru Skriðjöklar í langa pásu en eins konar hliðarsveit eða útibú frá sveitinni undir nafninu Glaumar starfaði næstu misserin á meðan, sú sveit lék einkum á dansleikjum fyrir norðan. Lítið gerist í Skriðjöklunum á meðan og það var ekki fyrr en í byrjun árs 1991 að eitthvert lífsmark reyndist með sveitinni en þá var hún fengin til að leika á þorrablóti Íslendinga í París, og lék þá reyndar einnig á stað sem bar nafnið Majestic cave. Sveitin hafði þar nokkuð breytta liðsskipan frá fyrri tíð en meðlimir hennar voru þá Ásmundur Magnússon söngvari [?], Jósef Auðunn Friðriksson hljómborðsleikari [?], Sölvi Ingólfsson söngvari [?], Jón Haukur Brynjólfsson bassaleikari, Jakob Rúnar Jónsson gítarleikari og söngvari og Sigfús Örn Óttarsson trommuleikari. Sveitin var þó greinilega ekki starfandi því ekkert spurðist til hennar aftur fyrr en hún lék á áramótadansleik í Sjallanum undir lok árs 1991, og var þá tíu manna – engar upplýsingar er að finna um hverjir skipuðu sveitina þá en reikna má með að Kristján Edelstein gítarleikari hafi þá verið kominn í hópinn.

Vorið 1992 lifnaði heldur yfir Skriðjöklunum og sveitin fór á fullt aftur, og sendi frá sér lag á safnplötunni Í sumarsveiflu á vegum Steina. Þar var á ferð ábreiða af stórsmellinum Kaupmaðurinn á horninu sem GCD höfðu sent frá sér ári fyrr, Skriðjökla-útgáfan var talsvert frábrugðin upprunalegu útgáfunni og náði nokkrum vinsældum. Meðlimir sveitarinnar að þessu sinni voru Ragnar sót, Jón Haukur, Jakob, Jóhann, Kristján Edelstein og Geir Rafnsson á trommur. Skriðjöklar fóru mikinn um sumarið, spiluðu víða undir yfirskriftinni Skriðjöklar og Mette baða sig en með í för var einmitt dönsk nektardansmær sem hét Mette. Um verslunarmannahelgina léku Jöklarnir stórt hlutverk á nýjung sem boðið var upp á á Akureyri undir heitinu Halló Akureyri, sveitin var þar meðal forsvarsmanna hátíðarinnar og léku á dansleikjum í heimabænum alla helgina.

Um þetta leyti voru uppi hugmyndir um að gefa út safnplötu með vinsælustu lögum Skriðjöklanna en þá höfðu flest laga þeirra einvörðungu komið út á vínylplötuformi og voru því ófáanleg á geisladiskum utan örfárra sem ratað höfðu á safnplötur. Þarna var talað um fjórtán eldri lög ásamt fimm nýjum lögum og meðal þeirra nýju átti að vera fyrsta lagið sem Skriðjöklar höfðu hljóðritað en það hét Tirilli. Safnplatan leit þó ekki dagsins ljós og hefur ekki gert það ennþá.

Eftir þessa sumartörn lagðist sveitin að mestu í híði, spilaði lítið um haustið en fór svo til Danmerkur í byrjun árs 1993 til að leika á tveimur þorrablótum fyrir Íslendinga. Sveitin vaknaði svo aftur almennilega til lífsins um sumarið með spilamennsku um land allt og svo á Halló Akureyri um verslunarmannahelgina eins og sumarið á undan. Skriðjöklar sendu þetta sumar frá sér tíu laga plötu sem bar heitið Búmm tsjagga búmm en á henni var að finna ábreiður af lögum sem íslenskt tónlistarfólk og hljómsveitir höfðu gert vinsælt á sjöunda og áttunda áratugnum en höfðu ekki hlotið næga athygli að mati sveitarmanna, þarna voru lög eins og Flagarabragur, Þú ert minn súkkulaðiís, Í hjónasæng og Bíllinn minn og ég, sem titill plötunnar vísar til en það lag náði nokkrum vinsældum í meðförum Skriðjökla. Þetta sumar virðist sveitin vera að miklu leyti skipuð upprunalegum meðlimum að miklu leyti, að minnsta kosti samkvæmt þeim sem léku og sungu á plötunni en það voru Ragnar, Bjarni, Kolbeinn, Jón Haukur, Jóhann, Logi Már, Jakob, Eggert og Ásmundur. Platan hlaut fremur slaka dóma í DV en hins vegar góða í Degi, hún seldist þokkalega eða í um 1500 eintökum. Þetta reyndist vera síðasta plata sveitarinnar – að minnsta kosti enn sem komið er.

Skriðjöklar 2012

Eftir sumartörnina 1993 hvarf sveitin af sjónarsviðinu um tveggja ára skeið, birtist aftur vorið 1995 og léku eitthvað lítillega en þá kom aftur langt hlé – lengra en nokkru sinni fyrr því Skriðjöklarnir birtust ekki aftur fyrr en sumarið 1999 og léku þá á nokkrum dansleikjum undir yfirskriftinni Hugvit og fegurð ´99, m.a. á Halló Akureyri, Gauki á Stöng og svo í Sjallanum á Akureyri um haustið. Meðlimir sveitarinnar þetta sumar voru þer Jón Haukur, Ragnar, Jakob, Jóhann og trommuleikarinn Halldór Gunnlaugur Hauksson (Halli Gulli) en hann var þá fimmti trommuleikari hennar, einnig komu Logi Már og Bjarni eitthvað fram með þeim félögum um sumarið.

Eftir langt vetrarhlé komu Skriðjöklar aftur saman sumarið 2000 og léku á nokkrum dansleikjum, m.a. á fjölskylduhátíð á Akureyri um verslunarmannahelgina. Sveitin hafði látið prenta nýtt upplag af auglýsingaplakötum frá því sumarið á undan en áttuðu sig ekki fyrr en of seint að á því að þar stóð „Hugvit og fegurð ´99“, þeir félagar brugðu því á það ráð að bæta sjálfir aftan við „…túrinn heldur áfram!“ og þær auglýsingar notuðu þeir áfram.

Sveitin lagðist aftur í híði um haustið 2000 og lék lítið næsta sumar, og síðan þá hefur starfsemi og samstarf félaganna að norðan verið fremur stopult, þannig léku Skriðjöklar í nokkur skipti árið 2005 og hafa komið upp á yfirborðið og leikið á stöku dansleikjum og þorrablótum síðan þá, nokkuð reglulega á árunum 2008-13 á stöðum eins og Players, Spot, Græna hattinum o.fl. en síðan þá lítið sem ekkert. Árið 2012 lék sveitin á risatónleikum í miðbæ Akureyrar í tilefni af 150 ára afmæli Akureyrarbæjar en þar munu mörg þúsund gestir hafa verið viðstaddir og því um stærsta einstaka viðburð sem sveitin kom við sögu. Engar upplýsingar er að finna um hverjir skipuðu Skriðjökla þessi síðustu ár utan þess að Ragnar, Jón Haukur og Jakob – hryggjarsúlan í sveitinni hafa alltaf verið meðlimir hennar. Ýmsir aðrir hafa verið nefndir meðal meðlima Skriðjökla, þannig munu menn eins og Björn Vilhjálmsson bassaleikari, Karl Örvarsson söngvari, Níels Ragnarsson hljómborðsleikari og Tómas Tómasson gítarleikari hafa verið nefndir til sögunnar en upplýsingar þ.a.l. mætti gjarnan staðfesta sem og nöfn annarra sem gætu hafa komið við sögu sveitarinnar.

Tæplega verður gefið út dánarvottorð á Skriðjöklana í bili því allt eins má búast við að sveitin birtist til að leika á dansleikjum. Sögu grallaranna frá Akureyri sem hófu ferilinn með þremur tilraunum í Atlavík, slógu svo í gegn með lögum eins og Steini, Hesturinn, Tengja, Hryssan mín blá og Aukakílóin, er því líklega ekki alveg lokið. Sukk og gleði einkenndi alltaf sveitina, að minnsta kosti framan af og sagt var að alltaf hefði verið farið af stað í rútunni með eina flösku á mann (vodka væntanlega) sem stundum var orðin tóm þegar ballið hófst, þá segir sagan að á einhverju ballinu hefði þurft að vekja trommuleikara sveitarinnar reglulega. Hætt er við að slík vinnubrögð þættu varla boðleg í dag.

Eftir Skriðjöklana liggja fjórar smáskífur og tvær breiðskífur en einnig nokkur lög á safnplötum eins og Pottþétt 80‘s 2 (2001), Óskalögin 7 (2003), Verslunarmannahelgin (1999), Þetta er náttúrulega bilun (1986), 100 íslensk 80‘s lög (2007) og í Sumarsveiflu (1992). Þá er enn beðið útgáfu safnplötu sem sveitin hugðist senda frá sér á sínum tíma.

Efni á plötum