Stríð og friður (2000-09)

Stríð og friður

Segja má að hljómsveitin Stríð og friður hafi verið hálfgildings leynihljómsveit, hún starfaði í um áratug, lék reyndar ekki mikið opinberlega en gaf út eina plötu undir nafninu Bubbi og Stríð & friður auk þess að leika á þremur öðrum plötum Bubba Morthens og sólóplötu Heru Hjartardóttur að auki.

Bubbi Morthens hafði um nokkurra ára skeið sent frá sér plötur hartnær árlega sem voru í ljúfari kantinum ef svo mætti að orði komast, áður hafði hann framleitt rokk með sveitum eins og Utangarðsmönnum, Egó, Das Kapital, MX-21 og GCD og eftir að hafa annars vegar gefið út smáskífu sem fylgdi ferilssafnplötunni Sögur 1980-1990 þar sem hann flutti lög með ungsveitunum Botnleðju og Ensími (1999) og hins vegar endurnýjað kynni sín við Utangarðsmenn (1999 og 2000) fann hann þörf fyrir að stofna nýja rokksveit. Nýja sveitin var stofnuð um haustið 2000 undir nafninu Stríð og friður og auk Bubba voru í henni þeir Jakob Smári Magnússon bassaleikari, Pétur Hallgrímsson gítarleikari, Guðmundur Pétursson gítarleikari og Arnar Geir Ómarsson trommuleikari, allt þekktir tónlistarmenn sem hann hafði starfað með áður.

Stríð og friður léku í fáein skipti á Gauki á Stöng þarna um haustið 2000 og þar var keyrt á eldra efni frá ferli Bubba, s.s. með Utangarðsmönnum, Das Kapital og Egó auk efnis frá sólóferli hans, í blaðaviðtölum var gefið í skyn að það væri plata í bígerð með sveitinni. Á nýju ári lék Stríð og friður örlítið en fór svo í hljóðver og tók upp efni á heila plötu, hún var unnin „live“ og frekar hratt en beðið var með útgáfu hennar. Þegar nær dró vori fór sveitin svo til Þýskalands og Danmerkur og spilaði fyrir þarlenda og Íslendinga, reyndar voru þá uppi plön um að þeir félagar færu einnig til Svíþjóðar og Finnlands um haustið en ekki liggur fyrir hvort það var gert. Um sumarið lék þeir eitthvað opinberlega, m.a. á tónleikum í tilefni af útgáfu safnplötunnar Svona er sumarið 2001 en þar átti sveitin eitt lag.

Platan kom hins vegar út um haustið undir titlinum Nýbúinn og vakti athygli þó ekki nema væri fyrir umslagið en það skartaði mynd af þeldökkum sjómanni í íslenskri lopapeysu og vísaði sú mynd til titillags plötunnar sem fjallaði um rasisma í íslensku samfélagi. Myndband var gert við lagið en var tekið fljótlega úr sýningu þar sem menn héldu að fólk myndi misskilja það og textann, að það ýtti undir rasisma – það var þó alls ekki meiningin. Platan var gefin út í nafni Bubba og Stríðs & friðar þannig að ekki var um sólóplötu Bubba að ræða heldur hljómsveitarplötu. Tvö lög plötunnar, fyrrnefnt titillag og Alltaf einn nutu nokkurra vinsælda en að öðru leyti fór þessi plata ekki mjög hátt af einhverjum ástæðum, hún fékk varla nema þokkalega dóma í Morgunblaðinu. Það er athyglisvert að platan er í dag ekki aðgengileg á tónlistarveitum þrátt fyrir að allt annað efni tengt Bubba Morthens sé þar.

Stríð og friður lék nokkuð á tónleikum í kjölfar útgáfu plötunnar og eitthvað fram yfir áramótin 2001-02 en hvarf svo, þar með má segja að hljómsveitin sem slík hafi horfið af sjónarsviðinu en hún var þó síður en svo hætt störfum því þeir Jabob Smári, Guðmundur og Arnar Geir störfuðu áfram með Bubba en Pétur gítarleikari var reyndar fjarri góðu gamni, stöku sinnum komu þeir fram sem hljómsveitin Stríð og friður en yfirleitt léku þeir með Bubba án þess að nafn sveitarinnar væri tiltekið sérstaklega.

Þannig störfuðu þremenningarnir með Bubba á næstu plötum hans, fyrir jólin 2002 kom t.a.m. út platan Sól að morgni og ári síðar 1000 kossa nótt en þá léku þeir félagar einnig á plötu Heru Hjartardóttur, Hafið þennan dag – Bubbi kom þar reyndar lítillega við sögu einnig. Það sama ár, 2003 spilaði Stríð og friður reyndar nokkuð opinberlega, hér má nefna minningartónleika um Joe Strummer og á SPOT tónlistarhátíðinni í Danmörku. Árið 2004 kom sveitin einnig eitthvað fram um vorið.

Árið 2006 var stórt ár hjá Bubba Morthens, hann fagnaði þá fimmtugs afmæli sínu með endurútgáfum á fyrri plötum sínum og blés svo til afmælistónleika í Laugardalshöllinni þar sem allar hljómsveitir hans komu fram, þ.m.t. Stríð og friður, og á tvöfaldri tónleikaplötu með upptökum úr Höllinni sem gefin var út um haustið undir nafninu 06.06.06 má heyra fjögur lög með sveitinni, Við Gróttu, Talað við gluggann, Stál og hnífur og Afgan, sem öll eru reyndar frá sólóferli Bubba.

Stríð og friður starfaði áfram þótt ekki væri nafn hennar á allra vörum, sveitin lék með Bubba á landsmóti UMFÍ og á Lopapeysuballi á Írskum dögum á Akranesi sumarið 2007 og svo á tvennum tónleikum á NASA um haustið og þá hafði Pétur gítarleikari aftur gengið til liðs við sveitina, sveitin lokaði svo árinu með því að fara með Bubba á Litla Hraun á aðfangadag til að leika fyrir fangana þar.

Þá um veturinn 2007-08 vann sveitin plötuna Fjóra nagla ásamt Bubba og kom sú plata út um vorið 2008. Þar með hafði sveitin sent frá sér eina plötu í eigin nafni, leikið með Bubba á þremur sólóplötum hans og svo á plötu Heru Hjartar. Fleiri urðu plöturnar ekki þrátt fyrir að það hafi verið ráðgert að sveitin kæmi við sögu á næstu plötu Bubba árið 2010 heldur hóf Bubbi samstarf við hljómsveitina Sólskugga, sem lék á næstu plötu hans. Stríð og friður hætti því störfum árið 2009.

Efni á plötum