Stubbi og Stuðkarlarnir (1983)

Siglfirska hljómsveitin Stubbi og Stuðkarlarnir starfaði um nokkurra mánaða skeið árið 1983, hún náði á stuttum starfstíma að senda frá sér tveggja laga plötu.

Stubbi og Stuðkarlarnir var stofnuð snemma árs 1983 á Siglufirði og voru meðlimir sveitarinnar þeir Kristbjörn Bjarnason (Stubbi) söngvari, Leó R. Ólason hljómborðsleikari, Ingi Lárus Guðmundsson gítarleikari og Viðar Bergþór Jóhannsson bassaleikari, þeir félagar voru án trommuleikara en nýttu sér hins vegar trommuheila sem Leó stjórnaði.

Um vorið hafði sveitin farið í Stúdíó Bimbó á Akureyri og hljóðritað tvö lög sem komu svo út á plötu í kjölfarið, þegar þeir félagar fengu upplagið í hendurnar voru þeir um sama leyti að leika á dansleik í Grímsey og þar seldu þeir tuttugu eintök af plötunni, í Grímsey bjuggu þá um 100 manns á þrjátíu heimilum. Þrátt fyrir þessa ágætu byrjun seldist platan illa í kjölfarið – hún fékk aukinheldur afar slaka dóma í Tímanum og hætti sveitin líklega störfum fljótlega eftir útgáfu plötunnar.

Þess má svo geta að lögin tvö, Ég er táningur og Með kveðju til þín komu síðar út í syrpu á sólóplötu Leós (sem samdi bæði lög og texta) og síðarnefnda lagið kom svo einnig út á plötunni Svona er á Sigló, með breyttum texta.

Efni á plötum