
Sveinbjörn Sveinbjörnsson
Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld og píanóleikari er fyrst og allra fremst þekktur sem höfundur þjóðsöngs okkar Íslendinga, Lofsöngs (Ó, guð vors lands) en hann galt nokkuð fyrir að búa og starfa erlendis megnið af ævi sinni og því kynntust landsmenn ekki því sem hann hafði fram að færa sem tónskáld fyrr en síðar en hann var meðal allra fyrstu Íslendinga, ef ekki sá fyrsti sem starfaði við tónlist eingöngu. Það er í raun ekki fyrr en seint á síðustu öld og þessari sem tónlist hans hefur verið gefin út að einhverju marki en eftir hann liggur töluvert af sönglögum og nokkuð af minni tónverkum fyrir strengjasveitir og píanó.
Sveinbjörn fæddist sumarið 1847 að Nesi við Seltjörn sem eins og glöggir lesendur geta áttað sig á er auðvitað vestur á Seltjarnarnesi. Fjölskylda hans fluttist til Reykjavíkur þegar Sveinbjörn var barn að aldri og strax á unga aldri hneigðist áhugi hans í átt að tónlist enda var hann af miklum tónlistarættum. Hann mun hafa lært af sjálfum sér að leika á gítar fimm eða sex ára gamall en lærði svo á píanó hjá Ástríði Melsteð og svo söngfræði hjá Pétri Guðjohnsen en þeir tengdust fjölskylduböndum. Svo efnilegur þótti Sveinbjörn að Pétur bað hann um að kenna söng við Latínuskólann einn veturinn sem hann var enn við nám við skólann en Pétur var þá erlendis þann veturinn.
Að loknu námi við prestaskólann 1868 hugðist Sveinbjörn nema tónlist í Kaupmannahöfn áður en hann tæki prestvígslu enda var hann þá aðeins 21 árs gamall og ekki tíðkaðist að menn tækju slíka vígslu fyrr en þeir næðu 25 ára aldri. Hann hélt því utan en lenti reyndar í hrakningum á leiðinni með skipi því sem hann tók sér far með og ílengtist í Edinborg í Skotlandi meðan hann jafnaði sig um tveggja mánaða skeið en skipið hafði komist þar að landi. Þaðan fór hann loks til Danmerkur og nam þar næstu tvö árin píanóleik og söng auk hljómfræði en hann söng þar einnig í kór, að því loknu fór hann aftur til Edinborgar því honum hafði líkað vel þar og í Skotlandi átti hann eftir að búa og starfa megnið af ævinni – og tók reyndar aldrei prestvígslu.
Sveinbirni vegnaði vel í Edinborg og efnaðist þar ágætlega þar sem hann kenndi bæði píanóleik og söng en hóf svo einnig að semja tónlist en hann hafði farið til Leipzig í Þýskalandi árið 1872 og numið þar söng og tónsmíðar um nokkurra mánaða skeið. Í kjölfarið þess byrjaði hann að semja sönglög og aðra tónlist en mörg sönglaganna urðu nokkuð þekkt á Bretlandseyjum, þau hlutu öll enska titla enda voru samin við þau textar á ensku eða hann samdi lög við ensk kvæði sem var til þess að þegar Matthías Jochumsson fór þess á leit við hann að hann semdi lag við sálm sem hann nefndi Lofsöng í minningu Íslands þúsund ára (venjulega þó nefnt Lofsöngur eða Ó, guð vors lands) og var ætlaður til flutnings sumarið 1874 þegar Ísland fagnaði 1000 ára byggðarafmæli, að það var í fyrsta sinn sem hann samdi lag við íslenskt ljóð. Matthías samdi einmitt fyrsta erindi ljóðsins á heimili Sveinbjörns í Edinborg veturinn 1873-74 og í framhaldinu samdi sá síðarnefndi lagið – þess má geta að skjöldur er á húsi því sem Sveinbjörn bjó í Edinborg, þar sem segir frá þessu. Lag og ljóð voru síðan frumflutt af blönduðum kór undir stjórn Péturs Guðjohnsen (fyrrum lærimeistara Sveinbjörns í tónlist) við hátíðlega athöfn í Dómkirkjunni í Reykjavík í ágúst 1874 að viðstöddum Kristjáni níunda Danakonungi, og fékk þá þegar þann sess sem síðar varð og var m.a. flutt opinberlega þegar Ísland hlaut fullveldi haustið 1918, lagið varð þó ekki að opinberum þjóðsöng Íslendinga fyrr en það var fest í lög árið 1983.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson
Þjóðsöngurinn hefur verið umdeildur í gegnum tíðina, upphaflega var lagið valið fram yfir Eldgamla ísafold (e. Bjarna Thorarensen) sem sungið var við enska þjóðsönginn God save the queen sem þótti ekki við hæfi en lagið hefur lengi þótt tormelt og erfitt í söng enda spannar það afar vítt tónsvið sem ekki er á allra færi að syngja, þar fyrr utan hefur það þótt of lang og þunglamalegt og á síðustu áratugum hefur það verið leikið mun hraðar en upphaflega var ætlað vegna þess, t.a.m. fyrir landsleiki í boltaíþróttum. Af þeim sökum hefur reglulega komið upp umræða um að skipta lagi og ljóði út fyrir aðgengilegra og styttra lag en Lofsöngurinn hefur haldið velli.
Tenging Sveinbjörns við föðurlandið var ekki mikil og hann kom ekki oft til Íslands en eftir að hann samdi þjóðsönginn hóf hann í auknum mæli að semja lög við íslensk ljóð, hann samdi t.a.m. Konungskantötu í tilefni af konungsheimsókn til Íslands 1907 og kom þá reyndar til Íslands af því tilefni þar sem hann var gerður að heiðursgesti, hann kom hér einnig í stuttar heimsóknir 1914 og 1919 þar sem hann hélt m.a. tónleika en flutti síðan vestur um haf til Winnipeg í Kanada á Íslendingaslóðir þar sem hann hafði áður dvalist tvívegis um skamman tíma. Hann ætlaði sér að eyða elliárunum þar en þegar ákveðið var árið 1922 að veita honum heiðurslaun alþingis hér heima fyrir starf sitt ákvað hann að flytja til Íslands. Hann festi þó ekki yndi hérlendis og e.t.v. hafði myrkrið og kuldinn yfir vetrartímann eitthvað að segja um það, hann fór héðan til Danmerkur haustið 1924 og hugðist hafa þar vetrardvöl (ein heimild segir til að leita sér lækninga við brjóstmeini) en kom ekki aftur til Íslands og lést í febrúar 1927 í Kaupmannahöfn fáeinum mánuðum fyrir áttatíu ára afmælið. Hann var jarðsettur hér heima við mikið fjölmenni.
Eftir Sveinbjörn munu liggja um áttatíu sönglög svo þekkt er, sem fyrr segir hóf hann ekki að semja lög við íslensk ljóð fyrr en eftir að Lofsöngurinn varð til en meðal þekktra sönglaga hans (bæði kórlög og einsöngslög) sem margir hafa flutt á plötum og tónleikum má nefna Sprettur (Ég berst á fáki fráum), Sverrir konungur, Miranda, Vetur, Páskadagsmorgunn, Árniðurinn og Huldumál en einnig útsetti hann og raddsetti fjölda íslenskra þjóðlaga, þess ber þó að geta að einhver laga hans við erlend ljóð hafa einnig náð útbreiðslu s.s. The vikings grave, The Challenge of Thor o.fl. Þá samdi hann einnig kammerverk, instrumental tónverk fyrir píanó, fiðlur o.fl.
Fyrsta lag Sveinbjörns til að koma út á plötu var að öllum líkindum Lofsöngurinn sem kom út á 78 snúninga plötu með Pétri Á. Jónssyni óperusöngvara árið 1920, fimm árum síðar kom út plata þar sem Sveinbjörn lék sjálfur þrjú frumsamin píanóverk (Idyl, Vikivaki og Íslenzk rhapsodia) og sama ár (1925) komu út nokkrar slíkar plötur þar sem Sigurður Skagfield söng lög Sveinbjörns við undirleik höfundarins og í kjölfarið komu fleiri plötur þar sem Eggert Stefánsson, Guðrún Ágústsdóttir, Einar Kristjánsson, Elsa Sigfúss og fleiri sungu lög Sveinbjörns.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson
Það var þó ekki fyrr en á áttunda áratugnum sem tónlist Sveinbjörns var almennilega sinnt með útgáfu á stórri plötu en þá söng Karlakór Reykjavíkur nokkur lög eftir hann og Sigfús Einarson í útgáfuröð sem SG-hljómplötur stóð fyrir í samstarfi við Karlakór Reykjavíkur, sú plata bar nafnið Karlakór Reykjavíkur syngur lög eftir Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Sigfús Einarsson (1974). Haustið 1999 hljóðritaði svo Halldór Víkingsson á þriðja tug sönglaga eftir Sveinbjörn í menningarstöðinni Gerðubergi í Breiðholti en þau sungu Bergþór Pálsson og Signý Sæmundsdóttir við undirleik Jónasar Ingimundarsonar, þau komu svo út ári síðar hjá Smekkleysu í útgáfuröðinni Íslenska einsöngslagið undir titlinum Sveinbjörn Sveinbjörnsson: einsöngslög, og hlaut þokkalega dóma. Og í kjölfarið kom plata út á vegum Naxos útgáfunnar árið 2007 með þeim Nínu Margréti Grímsdóttur, Auði Hafsteinsdóttur, Sigurgeiri Agnarssyni og Sigurði Bjarka Gunnarssyni þar sem þau fluttu fáein kammerverk Sveinbjörns undir nafninu Sveinbjörn Sveinbjörnsson (1847-1927): Piano trios, Violin sonata in F major, en platan hafði verið hljóðrituð í Salnum í Kópavogi. Sú plata fékk mjög góða dóma í Morgunblaðinu. Að síðustu er hér nefnd plata sem Smekkleysa gaf út með Kammersveit Reykjavíkur sem kom út 2011 undir titlinum Brautryðjandinn (The Pioneer): Sveinbjörn Sveinbjörnsson, kammerverk (Chamber music), sú plata fékk einnig góða dóma í Fréttablaðinu. Þá er enn ógetið allra þeirra stöku laga sem ýmsir einsöngvarar og píanóleikarar hafa sent frá sér á fjölmörgum plötum í gegnum tíðina og eru lög eins og margnefndur Lofsöngur og Sprettur þar áberandi, hér má nefna flytjendur eins og Jóhann Friðgeir Valdimarsson, Gísla Magnússon, Emil Thoroddsen, Kór Langholtskirkju, Öldu Ingibergsdóttur, Karlakórinn Fóstbræður, Þórarin Stefánsson, Ríó tríó, Má Magnússon og ótal fleiri.
Sveinbjörn Sveinbjörnsson hlaut margs konar viðurkenningar fyrir starf sitt bæði hér heima og erlendis, áður eru nefnd heiðurslaunin alþingis sem honum voru veitt þegar hann flutti heim en einnig hlaut hann heiðurspening úr hendi Kristjáns níunda árið 1874 fyrir þjóðsönginn, þá fékk hann riddarakross Dannebrogsorðunnar fyrir Konungskantötuna 1907 sem og stórriddarakross sömu orðu síðar, hann hlaut prófessoranafnbót í Kaupmannahöfn og var einnig sæmdur fálkaorðunni hér heima. Árið 1969 kom svo út bókin Sveinbjörn Sveinbjörnsson – ævisaga, skráð af Jóni Þórarinssyni sem Almenna bókafélagið gaf út, þá eru enn ótalin nótnahefti sem gefin hafa verið út með verkum hans en hér má nefna Tólf sönglög fyrir karlakór sem Samband íslenzkra karlakóra gaf út 1932.