
Fimm sjöttu Hundslappadrífu árið 1998
Sveitasveitin Hundslappadrífa vakti nokkra athygli undir lok síðustu aldar þegar sveitin sendi frá sér plötu en tónlist hennar þótti svolítið sér á báti, frumsamið þjóðlagaskotið rokk með vönduðum textum knúin af fremur óhefðbundinni hljóðfæraskipan.
Sögu Hundslappadrífu má rekja allt aftur til 1994 þegar bræðurnir Þorkell Sigurmon og Þormóður Garðar Símonarsynir frá Görðum í Staðarsveit á Snæfellsnesi hófu að búa til tónlist saman ásamt nágranna sínum Helga Axeli Svavarssyni, þeir félagar notuðu gítara og mandólín auk annarra akútískra hljóðfæra sem gaf tónlistinni þjóðlagakenndan blæ en verkaskiptingin var nokkurn veginn á þann veg að yngri bróðirinn Þormóður (yfirleitt kallaður Þorri) samdi lögin en Þorkell (Keli) samdi textana sem oftar en ekki voru samdir undir hefðbundinni stuðlasetningu og bragarháttum og þóttu einnig skemmtilegir, höfðu sögulegar skírskotanir og vísuðu einnig í gráan hversdagsleikann. Eyþór Österby bættist í hópinn og síðan söngkonan Ingibjörg Hrönn Guðmundsdóttir (hálfsystir Bjarkar Guðmundsdóttur) og harmonikkuleikarinn Brynja Grétarsdóttir sem ku hafa fyrst leikið á harmonikku um það leyti sem hún gekk í sveitina (1997) þrátt fyrir að vera dóttir Grétars Geirssonar þekkts harmonikkuspilara.
Þannig skipuð fór sveitin að koma fram fyrir alþjóð og haustið 1998 spratt hún nokkuð óforvandis fram á sjónarsviðið með plötu í farteskinu sem bar heitið Ert‘úr sveit! sem þau gáfu sjálf út. Platan hlaut ágætar viðtökur, fékk þannig fína dóma bæði í Morgunblaðinu og Degi en lítið fór svo fyrir Hundslappadrífunni í kjölfar útgáfunnar og lagðist sveitin líklega í dvala um tíma.
Hundslappadrífa var ekki áberandi næstu árin en kom þá reglulega fram á sjónarsviðið á almennum tónleikum m.a. ásamt Helga og hljóðfæraleikurunum, Ólínu Gunnlaugsdóttur og fleirum, og líklega lék sveitin mun meira á heimaslóðum á Snæfellsnesinu en á suðvesturhorninu. Þær Inga og Brynja hættu á einhverjum tímapunkti í sveitinni og líklega Eyþór einnig en þeir hinir héldu líklega samstarfinu að mestu leyti áfram, ekki liggja fyrir upplýsingar um aðrar mannabreytingar í sveitinni en þegar hún fagnaði tíu ára afmæli árið 2004 sendi hún frá sér nýja plötu – 10 vetra, spiluðu Jökull Helgason og Þórdís Claessen með sveitinni. Sú plata fór ekki eins hátt og Ert‘úr sveit! og Hundslappadrífa leið fljótlega undir lok eftir útgáfu hennar, hún lék eitthvað fram á árið 2005 en hætti síðan störfum. Kjarninn úr sveitinni átti síðan eftir að stofna nýja sveit sem hlaut nafnið Stormur í aðsigi.