Classic (1966-69)

Classic

Hljómsveitin Classic var stofnuð upp úr annarri sveit sem bar heitið Alto, og starfaði hún á árunum 1966-69.

Meðlimir Classic voru Guðmundur Óli Sigurgeirsson söngvari og orgelleikari sem stofnaði sveitina 1966, Guðmundur Sigurðsson söngvari og bassaleikari, Magnús Ólafsson gítarleikari og söngvari, Gunnar E. Hübner trommuleikari og Hörður Friðþjófsson gítarleikari. Þannig var sveitin skipuð til ársins 1967 þegar Guðmundur Óli hætti í sveitinni til að einbeita sér að námi sínu í Kennaraskólanum og tók þá Guðni Sigurðsson (tvíburabróðir Guðmundar bassaleikara) við hlutverki hans sem orgelleikari og söngvari.

Classic sem lék fjölbreytta vinsæla balltónlist lék töluvert í Glaumbæ, Breiðfirðingabúð, Félagsheimili Kópavogs og víðar á höfuðborgarsvæðinu meðan hún starfaði en einnig í klúbbum varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, þá spilaði sveitin nokkuð á árshátíðum og þess konar skemmtunum. Ekkert hljóðritað efni liggur eftir hana.

Classic starfaði til 1969 en önnur sveit, Plantan, spratt síðar upp frá rótum hennar.