Afmælisbörn 30. mars 2015

Jóhann Ásmundsson1

Jóhann Ásmundsson

Afmælisbörnin í dag eru þrjú talsins:

Páll Torfi Önundarson læknir og tónlistarmaður er sextugur á þesum mánudegi. Hann varð þekktur sem gítarleikari í Diabolus in musica á áttunda áratugnum en hefur einnig leikið í sveitum eins og Grasrexi, Combói Jóhönnu Þórhalls, Six pack lation, Saltfisksveit Villa Valla og Síríusi. Páll Torfi er einnig tónskáld og hefur gefið út tvær plötur með tónlist eftir sig, margir muna eftir lagi hans Ferrari, sem Ragnheiður Gröndal flutti í Eurovision fyrir nokkrum árum.

Jóhann Ásmundsson bassaleikari er 54 ára. Jóhann hefur starfað með fusion-sveitinni Mezzoforte frá stofnun hennar en hann hefur einnig leikið með sveitum eins og Model, Action, Akureyrar-útlögunum, Íslandssögum, Alvörunni, DP tribute, Dúndrinu, Gildrumezz og Wumblmbid. Hann hefur gefið út eina sólóplötu og vinnur einnig við hljóðupptökur.

Einnig hefði Ögmundur Eyþór Svavarsson átt afmæli á þessum degi en hann lést 1999. Ögmundur var mjólkurfræðingur á Sauðárkróki, samdi tónlist, stýrði lúðrasveitum og karlakórum á Króknum auk þess að leika á píanó með Hljómsveit Hauks Þorsteinssonar og H.G. kvintettnum. Ögmundur samdi tónlist og gaf fjölskylda hans út plötuna Munið í glensi og glaumi, í minningu hans en hann lést 1999.