
Dagur Sig
Dagur Sig og Blúsband munu leika á Café Rosenberg nk. miðvikudag.
Dagur Sig og Blúsband er ungt og upprennandi blúsband. Hljómsveitin kom saman og spilaði á Blúshátíð 2015 og voru viðtökurnar svo góðar að ákveðið var að keyra bandið áfram.
Dagur Sigurðsson söngvari bandsins á langan feril að baki þrátt fyrir ungan aldur og byrjaði að syngja blúsinn aðeins 15 ára gamall og 18 ára gamall tók hann þátt í Blúshátíð Kópavogs undir stjórn Björns Thoroddsen. Undanfarið hefur hann komið fram í ýmsum uppfærslum með Rigg hópnum. Má þar nefna heiðurstónleika Meatloaf, U2 o.fl.
Í blúsbandinu eru frábærir tónlistarmenn. Það eru þeir Hjörtur Stephensen sem leikur á gítar af sinni alkunnu snilld. Ryþmasveitina skipa svo Magnús Örn Magnússon á trommur og Steinþór Guðjónsson á bassa.
Hljómsveitin ætlar að endurtaka leikinn frá Blúshátíð 2015 og telja í nokkra vel valda blúsa miðvikudagskvöldið 20. maí nk. á Café Rosenberg.
Að þessu sinni var ákveðið að fá hina óviðjafnanlegu Thelmu Byrd aftur til liðs við bandið sem gestasöngkonu og snillinginn Daða Birgisson til að leika með á hljómborð.
Hljóðið verður í höndum Ásmundar Jóhannssonar.
Húsið opnar á slaginu 21.00 og miðaverð er 2000 kr.