Vestanáttin sendir frá sér plötu

Vestanáttin (2)

Vestanáttin

Hljómsveitin Vestanáttin hefur sent frá sér plötu samnefnda sveitinni en hún er skipuð þungavigtarfólki úr íslensku tónlistarlífi.

Vestanáttin var stofnuð fyrir rúmu ári síðan af Guðmundi Jónssyni, lagasmiði, gítarleikara og söngvara (Sálin hans Jóns míns, Nykur o.fl.) með þeim formerkjum að leika hans eigin lög með sveitatónlistarblæ. Hann hóaði að sér til fulltingis öndvegisliði og var strax farið að æfa og koma fram á tónleikum. Alma Rut Kristjánsdóttir (Heitar lummur, Ásynjur o.fl.) syngur og raddar, Sigurgeir Sigmundsson (Start, Gildran o.fl.) leikur á gítar, bæði úr tréi og stáli og hrynparið samanstendur af þeim Eysteini Eysteinssyni (Papar, Yrja o.fl.) er leikur á trommur og raddar og Pétri Kolbeinssyni (Bermuda o.fl.) er plokkar bassann.

Vestanáttin hefur undanfarin misseri spilað víða við góðan orðstír og langaði því bandinu að hræra saman í eina plötu. Lögin eru öll frumsamin eftir Guðmund og er farið um víðan völl í kántrý popprokkstílnum, með textum sem eru bæði launbeittir og silkimjúkir. Nú þegar hafa lög af disknum eins og „Sjá handan að“, „Í alla nótt“ og „Þar sem ástin í hjörtum býr“ heyrst í útvarpinu og fengið prýðis viðtökur. Tveir gestaleikarar heiðra Vestanáttina á disknum með nærveru sinni , þau Guðrún Árný söngkona og Matthías Stefánsson fiðluleikari.