Róbert Arnfinnsson (1923-2013)

Róbert Arnfinnsson (2)

Róbert Arnfinnsson

Leikarinn góðkunni (Jón) Róbert Arnfinnsson sem einnig þótti liðtækur söngvari,  kom við sögu á nokkrum plötum á sínum tíma, einkum tengdum leikhúsinu.

Róbert var fæddur í Þýskalandi 1923, hann nam leiklist hér heima og í Danmörku áður en hann réðist til Þjóðleikhússins þar sem hann starfaði um árabil. Hann lék á þriðja hundrað hlutverka á sviði, mörg hver erlendis, og um sex hundruð önnur hlutverk í útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum. Róbert hlaut fjölda viðurkenninga fyrir framlag sitt til leiklistarinnar.

Færri vita að Róbert lék á harmonikku í hljómsveinni Black boys sem starfaði á Siglufirði á stríðsárunum, ekki liggur fyrir hvort hann lék með fleiri hljómsveitum á yngri árum.

Róbert lék fjölmörg hlutverk í söngleikjum og þar má nefna Fiðlarann á þakinu og Zorba en tónlist úr þeim söngleikjum var gefin út á fjögurra laga plötu á vegum SG-hljómplötum 1971. Þar var Róbert í aðalhlutverki og þekkja margir útgáfu hans á lögunum Ef ég væri ríkur og Sól rís, sól sest, sem nutu mikilla vinsælda á sínum tíma.

Þremur árum síðar (haustið 1974) kom út fyrri platan af tveimur sem Róbert söng lög eftir Gylfa Þ. Gíslason tónskáld og menntamálaráðherra til margra ára. Hún bar titilinn Við sundin blá, en ljóðin við lög Gylfa voru fengin úr samnefndri ljóðabók Tómasar Guðmundssonar. Platan fékk ágætar viðtökur, seldist upp fyrir jólin en ekki virðast hafa birst dómar um hana í fjölmiðlum.

Gylfi Þ. Gíslason, Róbert Arnfinnson og Jón Þórarinsson

Gylfi Þ. Gíslason, Róbert Arnfinnsson og Jón Þórarinsson

1979 kom út önnur plata þar sem Róbert söng lög Gylfa við ljóð ýmissa skálda. Platan, Lestin brunar, var unnin með svipuðum hætti og sú sem komið hafði út fimm árum áður. Hún hlaut hins vegar ekki náð fyrir augum (eyrum) gagnrýnanda Dagblaðsins, sem fannst hún slök.

Róbert kom raunar við sögu á fjölmörgum plötum þótt ekki væru þær sólóverkefni hans, söng hans og leik má til dæmis heyra á plötum sem hafa að geyma barnaleikritin Kardemommubæinn (1960 og 1970) og Mjallhvít og dvergana sjö en Róbert var einnig t.a.m. sögumaður á plötu Gláms og Skráms, Í sjöunda himni. Söng hans er ennfremur að finna á plötum eins og Eins og þú ert (1981), Jólasveinar ganga um gátt (1999), Nálgast jóla lífsglöð kæti (1981) og á snældunni Vísnakvöld 2, sem Vísnavinir gáfu út 1980. Róbert söng einnig á plötu Skúla Halldórssonar, Út um græna grundu, sem út kom 1994 og á plötunni Útvarpsperlur 1940-53 en sú plata kom út 1999 og hafði að geyma upptökur úr safni Ríkisútvarpsins með Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar. Það er líkast til elsta upptakan með Róberti. Þá eru ótaldar safnplötur sem hafa að geyma áður útgefið efni með honum, s.s. lögin úr barnaleikritunum.

Róbert lést 2013, á nítugasta aldursári.

Efni á plötum