
Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar
Tvær hljómsveitir voru starfandi innan veggja Ríkisútvarpsins á upphafsárum þess, annars vegar var um að ræða sjálfa „Útvarpshljómsveitina“ sem síðar varð að Sinfóníuhljómsveit Íslands, hins vegar það hin eiginlega Danshljómsveit Útvarpsins.
Danshljómsveit Útvarpsins var í raun hljómsveit sem Bjarni Böðvarsson hafði stofnað 1935 innan Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) til að leika í útvarpinu á hálfs mánaðar fresti. Eitthvað gekk illa að manna sveitina og fékk Bjarni nokkra félaga sína í sveitina, og varð hún líklega sama sveit og kölluð var venjulega Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar.
Meðlimir sveitarinnar voru auk Bjarna sem lék á saxófón, harmonikku og sitthvað annað sem spila þurfti á, Þorvaldur Steingrímsson fiðluleikari, Poul Bernburg trommuleikari, Fritz Weisshappel bassaleikari og Aage Lorange píanóleikari.
Ekki liggja fyrir upplýsingar um mannabreytingar innan sveitarinnar ekki síst vegna þess að ekki er alltaf gerður greinarmunur á Danshljómsveit Útvarpsins og Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar og því er erfitt að segja til um hversu lengi hún starfaði undir fyrrgreinda nafninu en síðustu blaðaheimildir greina frá henni 1949. Það er því líklegt að nafninu Danshljómsveit Útvarpsins hafi verið lagt endanlega um leið og nafninu Útvarpshljómsveitin, þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands varð til.
Tvær plötur hafa komið undir merkjum Ríkisútvarpsins með Hljómsveit Bjarna Böðvarssonar undir titlinum Útvarpsperlur 1940-53, og þar er freistandi að líta á þá sveit að hluta til sem Danshljómsveit Útvarpsins.