Demant hf. [útgáfufyrirtæki / umboðsskrifstofa] (1975-76)

Demant logo

Lógó Demants hf.

Útgáfufyrirtækið og umboðsskrifstofan Demant hf. starfaði um miðjan áttunda áratug síðustu aldar. Fyrirtækið varð ekki langlíft.

Það voru þremenningarnir Jón Ólafsson (síðar athafnamaður, þarna aðeins átján ára gamall), Helgi Steingrímsson og Ingibergur Þorkelsson sem komu að stofnun Demants hf. í janúar 1975.

Fyrirtækið lét fljótlega að sér kveða á útgáfusviðinu og innan fárra mánaða kom fyrsta platan út, Róbert bangsi í Leikfangalandi. Þótt ekki kæmu út nema um tugur platna (mestmegnis litlar plötur) á vegum Demants hf. var fjölbreytileikanum fyrir að fara í útgáfunni, Róbert bangsi (Rut Reginalds) er áður nefndur en einnig má nefna Megas (Millilending), Eik og Þórberg Þórðarson, auk safnplötunnar Peanuts.

Demant hf. sinnti einnig umboðsmennsku fyrir skemmtikrafta og tónlistarmenn og má þar nefna Baldur Brjánsson töframann og hljómsveitirnar Borgís, Stuðlatríóið, Dögg og Change. Aukinheldur annaðist fyrirtækið viðburðaþjónustu, sá um tónleika- og skemmtanahald ýmis konar.

Þeir Demants liðar voru með ýmsar hugmyndir í burðarliðnum og var ein þeirra að koma hljómsveitinni Change sem fulltrúum Íslands inn í Eurovision söngvakeppnina, þetta var ríflega áratug áður en Ísland tók fyrst þátt í þeirri keppni.

Til þess kom þó aldrei og vorið 1976 bárust þær fréttir að Demant væri hætt störfum, rúmlega ári eftir að fyrirtækið tók til starfa.