Afmælisbörn 15. október 2015

Baldur Geirmundsson

Baldur Geirmundsson

Á þessum degi koma fjögur afmælisbörn við sögu á skrá Glatkistunnar:

Fyrstan skal nefna Ísfirðinginn Baldur Geirmundsson sem er sjötíu og átta ára gamall í dag. Baldur sem leikur á ýmis hljóðfæri starfrækti á árum áður ýmsar sveitir undir eigin nafni, Hljómsveit Baldurs Geirmundssonar og BG kvintettinn voru dæmi um slíkar sveitir en frægust þeirra er án nokkurs vafa B.G. & Ingibjörg sem gaf út nokkrar plötur og hefur í raun starfað nánast fram á þennan dag. Baldur lék nýlega á harmonikku á plötunni Harmonikan í leikskólum landsins.

Bergljót Arnalds rithöfundur, tónlistar- og leikkona er fjörutíu og sjö ára í dag. Bergljót hefur m.a. gefið út plötuna (og bókina) um Stafakarlana þar sem hún söng um bókstafina en söng hennar er einnig að finna á fleiri plötum.

Árni Thorsteinsson söngvari og tónskáld átti afmæli á þessum degi. Árni fæddist í Reykjavík 1870, var efnilegur söngvari og nam söng í Kaupmannahöfn en var sjálfmenntaður í tónsmíðum sínum. Út kom plata árið 1970 þar sem Karlakór Reykjavíkur söng lög hans en lög hans hafa komið út á fleiri plötum, hann stjórnaði einnig kórum. Nokkur lög eftir Árna fundust fyrir fáeinum árum en hann lést 1962.

Rögnvaldur Sigurjónsson píanóleikari frá Eskifirði (f. 1918) átti einnig þennan afmælisdag en hann lést árið 2004. Rögnvaldur nam sína tónlist hér heima og síðan í New York en kom heim aftur að loknu námi og fékkst við kennslu auk tónleikahalds. Fjölmargar plötur komu út með píanóleik hans, bæði litlar og stórar, og hlaut hann margvíslegar viðurkenningar fyrir starf sitt í þágu tónlistarinnar. Þess má geta að Rögnvaldur keppti í sundknattleik á ólympíuleikunum í Berlín 1936.