Capri [1] (1961-63 / 1973)

Capri quintet 1963

Capri kvintett 1963

Hljómsveitin Capri (oft einnig nefnd Kapri eða jafnvel Kaprí) var á þeim tíma sem hún starfaði æði mis stór, allt frá því að vera tríó í byrjun og upp í það að vera sextett, og auðvitað allt þar á milli á þeim þremur árum er hún var starfrækt.

Baldur Kristjánsson stofnaði sveitina 1961 og í fyrstu var Capri tríó en auk Baldurs voru þeir Grettir Björnsson harmonikkuleikari og Erwin Koeppen bassaleikari í sveitinni, Baldur lék á píanó.

1963 hafði nokkuð bæst í hópinn en þá voru í Capri auk Baldurs, Erwins og Grettis, þeir Pétur Östlund trommuleikari og Örn Ármannsson en þeir tveir voru nokkuð yngri en aðrir meðlimir sveitarinnar.

Sveitin lék lengstum í Sjálfstæðishúsinu við Austurvöll og lagði áherslu á dinnertónlist og létta danstónlist en lék víða á landsbyggðinni á sumrin, ýmsir söngvarar komu við sögu hennar og þar má nefna Colin Porter, Þórunn Ólafsdóttir, Gunnar Guðmundsson, Eydís [?] og Anna Vilhjálms. Einhvern tímann var í plönum sveitarinnar að fá erlenda söngkonu til starfa en af því varð líklega aldrei.

Capri hætti störfum sumarið 1963 en var endurvakin af Baldri tíu árum síðar sem Capri tríó, þá til að anna eftirspurn á árshátíðarmarkaðnum. Ekki liggur fyrir hverjir skipuðu það tríó auk Baldurs en sú útgáfa var skammlíf.