Karlakórinn Þrymur [2] (1933-75)

Karlakórinn Þrymur

Karlakórinn Þrymur

Karlakórinn Þrymur á Húsavík (hinn síðari) starfaði mun lengur en sá fyrri eða í liðlega hálfa öld.

Stefán Guðjohnsen sem hafði haft veg og vanda af fyrri Þrymi kom að stofnun seinni kórsins haustið 1933 en sr. Friðrik A. Friðriksson, sem var þá nýkominn til Íslands úr Vesturheimi, og fleiri aðilar komu einnig að stofnun hans.

Það var einmitt séra Friðrik sem varð fyrsti stjórnandi kórsins og stýrði honum reyndar allt til ársins 1951 eða 52 þegar Sigurður Sigurjónsson frá Heiðarbót í Reykjahverfi tók við. Þeir tveir skiptu eitthvað með sér verkum á tímabili og voru í raun báðir við stjórnvölinn en Sigurður tók alfarið við haustið 1952.

Þrymur varð hluti af félagsskapnum Heklu, sem var samband norðlenskra karlakóra, og söng oftar en ekki á söngmótum sambandsins. Og kórinn söng víðar en á Norðurlandi þótt hann hafi að sjálfsögðu mestmegnis komið fram á heimaslóðum.

Kórinn kom jafnvel að útgáfumálum en 1953 gaf hann út heftið Kórlög í samstarfi við kirkjukór Húsvíkinga en báðir kórarnir áttu þá stórafmæli, Karlakórinn Þrymur tuttugu ára afmæli og kirkjukórinn tíu ára afmæli.

Sigurður Sigurjónsson var eins og sr. Friðrik forveri hans, lengi í starfinu en Sigurður var stjórnandi kórsins til 1968 eða í um sextán ár, um tíma í lokin var Ingimundur Jónsson viðloðandi stjórnina líka en haustið 1969 tók Tékkinn Jaroslav Lauda við starfinu en sá hafði komið sem tónlistarkennari til starfa á Húsavík.

Tvö lög höfðu komið út árið 1965 með Þrymi á safnplötunni Söngfélagið Hekla: Raddir að norðan (Songs of Iceland, Volume 2), sem Hekla, samband norðlenskra karlakóra stóð að í samstarfi við Fálkann. Á þeirri plötu söng Ingvar Þórarinsson einsöng með kórnum.

Jaroslav Lauda var ekki lengi með Þrym en annar Tékki, Ladislav Vojta tók við haustið 1971 og var aðeins eitt ár við stjórnvölinn áður en þriðji Tékkinn kom til sögunnar, Robert Bezdék, en hann stjórnaði Karlakórnum Þrymi til ársins 1975 en það var síðasta árið sem kórinn starfaði.

Tékkarnir þrír héldu reyndar uppi tónlistarlífinu í Suður-Þingeyjasýslu um árabil því þeir stjórnuðu fleiri kórum í sýslunni á þessum árum auk þess að halda uppi almennri tónlistarkennslu.

Á þessum árum starfaði kórinn náið með Lúðrasveit Húsavíkur og hélt fjölmarga tónleika með sveitinni og árið 1973 kom út plata með þeim saman á vegum Fálkans. Afar takmarkaðar upplýsingar er hins vegar að finna um þessa plötu.

Þótt Karlakórinn Þrymur hafi hætt störfum 1975 var augljóslega gerð tilraun til að endurvekja kórinn áratug síðar (1985) og kom hann fram þá á tónleikum en ekki liggur fyrir hver stjórnaði kórnum þá. Ekkert framhald varð á starfi kórsins í það skipti.

Efni á plötum